Úrslit Fyrirtækjasmiðjunnar 2020 – Fyrirtæki ársins og aðrir verðlaunahafar

Nemendur Verzlunarskólans voru í fyrsta og öðru sæti í fyrirtækjakeppni Ungra frumkvöðla. Í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla stofna nemendur og reka eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Að þessu sinni vann fyrirtækið Dyngja sem stofnað var af þremur strákum í 3-E þeim Magnúsi Benediktssyni, Jóni Hauki Sigurðarsyni og Alexander Sigurðarsyni. Þeir útbjuggu fjárfestingarapp sem leyfir notendum sínum að fjárfesta með gervipening á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Í öðru sæti var fyrirtækið Piskís sem framleiðir hunda og kattanammi úr þorskroði og eru það nemendur úr 3-D sem standa á bak við það þau Andri Már, Gunnar Axel, Rebekka Berta og Hrund. Auk þess voru tvö önnur fyrirtæki frá Verslunarskólanum sem unnu til verðlauna í keppninnni, Vösk fyrir umhverfisvænustu lausnina og Rætur sem fékk verðlaun fyrir samfélagslega nýsköpun. Við erum mjög stolt af þessum nemendum og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Fyrirtækin eru öll með síður á Instagram.

Aðrar fréttir