22. feb. 2016

Verslingar vinna ensku ræðukeppnina

Tinna Líf Jörgensdóttir og Benedikt Bjarnason

Tveir nemendur Verzlunarskólans urðu í fyrsta og öðru sæti í landskeppni ensku ræðukeppninnar á vegum ESU, sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag.  Tinna Líf Jörgensdóttir varð í fyrsta sæti og Benedikt Bjarnason í öðru sæti.  Stefán Ás Ingvarsson komst í sex manna úrslit.
Versló átti alls sex keppendur af fimmtán, og stóðu þeir sig afspyrnu vel og voru sér og sínum til sóma.  Enginn öfundaði dómarana þegar skera átti úr um hverjir kæmust áfram í sex manna úrslit og því síður hverjir sigruðu að lokum. Dómarar í úrslitakeppninni voru: Erling Aspelund, Katrín Jakobsdóttir alþingismaður og Stuart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi.

Niðurstaða þeirra var að þrír frá Versló fóru í sex manna úrslit, þeir Benedikt Bjarnason, Stefán Ás Ingvarsson og Tinna Líf Jörgensdóttir. Að lokum stóð Tinna uppi sem sigurvegari og Benedikt í öðru sæti. Tinna fer því sem fulltrúi Íslands í alþjóðakeppnina í London í vor.    

Í innanhússræðukeppni Verzlunarskólans, sem haldin var í nemóvikunni, tóku átta nemendur þátt.  Þeir stóðu sig allir mjög vel, en þá sigraði Benedikt Bjarnason, Tinna Líf Jörgensdóttir varð í öðru sæti, og þriðja sætið vermdu þau Alexandra Katrín Ásgeirsdóttir og Stefán Ás Ingvarsson.

 

Fréttasafn