Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann

Verzlunarskóli Íslands fékk sinn fyrsta grænfána afhentan þann 29. apríl síðastliðinn. Katrín Magnúsdóttir, sérfræðingur Landverndar afhenti fánann við hátíðlega athöfn, en hann er viðurkenning á því að skólinn hafi staðist kröfur sem byggja á alþjóðlegum stöðlum verkefnisins, Skólar á grænni grein. Margrét Auðunsdóttir, kennari við VÍ og nemendur hennar í Umhverfisstjórnun tóku á móti fánanum og viðurkenningu. Verkefnið snýr að því að mennta nemendur í sjálfbærni og umhverfisvernd og byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. Skólinn fær að flagga fánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð, ef haldið er áfram því góða starfi sem hafið er.

Tvær umhverfisnefndir eru starfandi í Verzlunarskólanum, umhverfisnefnd nemenda (nemendur í Umhverfisstjórnun), sem í þetta sinn tók fyrir þrjú þemu: Neyslu og úrgang, hnattrænt jafnrétti og loftslagsbreytingar. Umhverfisnefnd starfsmanna starfar samhliða nemendum, en starfsemi þessara tveggja umhverfisnefnda tvinnast saman, sem er lykilatriði í því að árangur verði af starfinu og umbætur komi til framkvæmda. Starfinu er að sjálfsögðu engan veginn lokið og stöðugt samstarf og samtal verður áfram allra þeirra sem koma að í umhverfismálum Verzlunarskóla Íslands, en þar er mikilvægt að virkja allt skólasamfélagið.

Eitt af því mikilvægasta sem áorkaðist í vinnuferlinu var, að umhverfisnefndirnar tvær sameinuðust um að setja Verzlunarskóla Íslands umhverfisstefnu í fyrsta sinn í sögu skólans. Umhverfisstefnan er sem hér segir:

Umhverfisstefna Verzlunarskóla Íslands

Verzlunarskóli Íslands leitast við að hafa umhverfismál og sjálfbærni að leiðarljósi í öllu sínu starfi, jafnt faglega, í daglegum athöfnum og stefnumótun til framtíðar.

Til að svo geti orðið stefnir hann að eftirfarandi þáttum í umhverfismálum:

  • Skapa menningu innan skólans sem stuðlar að umhverfisvænum lífstíl.
  • Að áherslur skólans í umhverfismálum endurspeglist í allri starfsemi hans.
  • Auka fræðslu og vitundarvakningu til nemenda og starfsfólks skólans um umhverfismál.
  • Vekja athygli á mikilvægi þess að minnka neyslu og flokka það sem til fellur.
  • Vekja nemendur og starfsfólk til vitundar um hvernig neysla þeirra hefur áhrif í hnattrænu samhengi.
  • Hvetja nemendur og starfsfólk skólans til að nota umhverfisvænar samgöngur.
  • Starfrækja umhverfisnefndir nemenda og starfsfólks sem vinna saman að því að móta og framkvæma stefnu skólans í umhverfismálum.
  • Halda umhverfisdag/-viku árlega sem virkjar nemendur og starfsfólk.
  • Viðhalda grænfánanum, umhverfisviðurkenningu fyrir skóla.

Aðrar fréttir