9. jún. 2021

Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann í annað sinn

Föstudaginn 21. maí tók Verzlunarskólinn á móti Grænfánanum í annað sinn.

Fulltrúar í umhverfisnefnd nemenda og Margrét Auðunsdóttir, verkefnastjóri Grænfánaverkefnisins veittu fánanum viðtöku úr hendi verkefnisstjóra Landverndar. Haldnar voru stuttar ræður, en því miður var ekki hægt að boða alla nemendur skólans vegna sóttvarnarreglna. Nemendur drógu fánann að húni og að því loknu var afhjúpað skilti með merki grænfánans í anddyri skólans.
Nemendur í umhverfisnefndinni unnu mjög gott starf á árinu, t.a.m. stóðu þeir að  umhverfisdegi VÍ þann 15. mars, sem var helgaður loftslagsmálum, nemendurnir héldu kökusölu með heimalöguðum bollakökum til kolefnisjöfnunar, en ágóði fyrir hverja köku jafngilti gróðursetningu á einu tré í samstarfi við loftslagssjóðinn Kolvið. Náðist að safna fyrir gróðursetningu á 250 trjám. Margt fleira var framkvæmt í umhverfismálum sem ekki er tíundað hér, en skólinn þarf að standast öll skref „Skóla á grænni grein“ til að öðlast endurnýjun Grænfánans. 

Fréttasafn