2. jún. 2022

Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann í þriðja sinn

Föstudaginn 13. maí tók Verzlunarskólinn á móti Grænfánanum í þriðja sinn. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning á góðum árangri í umhverfismálum. Fulltrúar í umhverfisnefnd nemenda og Margrét Auðunsdóttir, verkefnastjóri Grænfánaverkefnisins veittu fánanum viðtöku úr hendi verkefnisstjóra Landverndar. Að því loknu var fáninn dreginn að húni í glampandi vorsólinni sem ríkti þennan fallega dag.

Umhverfisnefndin var mjög fjölmenn þetta árið, alls voru í henni 53 einstaklingar. Nemendur í umhverfisnefndinni unnu mjög gott starf á árinu, t.a.m. stóðu þeir að umhverfisdegi VÍ þann 8. mars sem helgaður var sjálfbærni og loftslagsbreytingum. Á deginum fór fram kökusala með heimabökuðum kökum til kolefnisjöfnunar en ágóði sölunnar var notaður til að planta trjám í samstarfi við kolefnissjóðinn Kolvið. Jafnframt var haldinn fataskiptimarkaður, þar sem nemendur og starfsmenn skólans komu með fatnað sem ekki nýttist þeim lengur. Allir gátu svo tekið sér þann fatnað sem þeim hentaði án þess að því fylgdi neinn kostnaður. Einnig nýttu nemendur í hönnun sér fatnaðinn til að endurskapa og nota á sýningu sem nemendur á listabraut skólans héldu í kjölfarið. Það sem eftir var af fötunum var farið með í Rauða Krossinn til að binda endahnút að aðgerðir gegn fatasóun sem þetta verkefni gekk út á. 

Nemendur í umhverfisnefnd skólans árið 2022 hafa unnið mjög gott starf, en í fyrsta sinn var efnt til fjöldahreyfingar í umhverfisnefnd. Þetta var gert í þeim tilgangi að auðveldara væri að breiða út boðskapinn og skapa menningu með umhverfisvænum lífsstíl sem endurspeglast í starfsemi skólans eins og Umhverfisstefna Verzlunarskóla Íslands miðar að. 

Fréttasafn