Vörumessa nemenda

Innan Versló eru nú starfrækt 20 fyrirtæki sem sýndu og seldu afrakstur vinnu sinnar á vörumessu Versló á Marmaranum. Um er að ræða nemendur á viðskiptabraut í 6. bekk í tengslum við Fyrirtækjasmiðjuna, áfanga í rekstrar- og frumkvöðlafræði. Í byrjun annar stofna nemendur á viðskiptabraut fyrirtæki á vegum Ungra Frumkvöðla. Verkefni annarinnar er svo að reka fyrirtækið í sameiningu, hanna, framleiða og selja sínar vörur ásamt því að gera upp fyrirtækið í lok annar.

Áfanginn er kenndur samtímis í 10 framhaldsskólum um allt land og voru fyrirtæki frá öllum þeim skólum samankomin á vörumessu í Smáralind um liðna helgi. Dómnefnd frá Ungum Frumkvöðlum veitti verðlaun fyrir; fallegasta sýningarbásinn: Fyrir hafið (Fjölbrautaskólinn í Garðabæ), mestu nýsköpunina: Meira (Verzlunarskóli Íslands), bestu markaðs- og sölumálin: Móðey (Verzlunarskóli Íslands) og besti Sjó-Bisnessinn: Katla cosmetics (Fjölbrautaskólinn í Armúla). Þema áfangans í ár er einmitt sjórinn/hafið og því eru verðlaunin besti sjó-bisnessinn veitt af Sjávarklasanum.

Uppskeruhátíð áfangans verður haldin í lok maí þar sem nemendur verða verðlaunaðir fyrir vinnu sína. Meðal annars verða veitt verðlaun fyrir mestu sjálfbærni, bestu ársskýrsluna, fyrirtæki ársins, o.fl. Fyrirtæki ársins vinnur sér svo inn þátttökurétt í Evrópukeppni Ungra Frumkvöðla sem fram fer í Brussel í sumar.

Aðrar fréttir