Hæfni – Ábyrgð – Virðing – Vellíðan
Demó, lagasmíðakeppni Verslunarskóla Íslands var haldin miðvikudagskvöldið 25. janúar í Bláa sal skólans. Keppnin var hin glæsilegasta í alla staði og skein ljós keppenda skært. Fjögur atriði voru flutt og voru þau hvort öðru betra. Keppendur voru Eva K. Cassidy með lagið I´ll be mine, Dóra og döðlurnar með lagið Líða fer að vetri, Ingunn María með lagið Á meðan og Viktor&Jason með lagið Þyrnirós. Dómararnir sem fengu það erfiða hlutverk að velja sigurvegara kvöldsins voru Sigga Eyrún, Benni Brynjólfs og Elín Hall. Kynnar kvöldsins voru fyrrum nemendur skólans Gunnar Hrafn og Katla Njálsdóttir. Eftir æsispennandi keppni stóð Ingunn María uppi sem sigurvegari en Dóra og döðlurnar voru val salarins. Demónefndin undir stjórn Katrínar Ýrar sá um allt skipulag keppninnar. Það er nokkuð ljóst að framtíðin er björt hjá þessum hæfileikaríku nemendum.
Verzlunarskóli Íslands og þrír aðrir menntaskólar á Norðurlöndum standa saman að 3ja ára námi til stúdentsprófs af náttúrufræðibraut þar sem sérstök áhersla er lögð á norðurskautstækni. Námið fer fram í Danmörku, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi.
Fyrsti hópurinn hóf nám haustið 2019 og mun útskrifast í júní í Grænlandi. Nemendur á öðru ári eru staddir á Íslandi en þeir stunda nám við Verzló á þessari önn eftir að hafa verið í Færeyjum á haustönn. Nemendur á fyrsta ári í náminu stunda sitt nám í Danmörku allt fyrsta árið.
Fimmtudaginn 9. mars opnum við dyr skólans og bjóðum nemendum í 10. bekk í heimsókn. Boðið er upp á klukkutíma kynningu á námi skólans og félagslífi þess auk þess sem hin vinsæla Verslólest leiðir gesti um húsakynni skólans.
Vikuna 16.-20. janúar tóku 15 nemendur í 2-S á móti jafnstórum hópi frá Hello framhaldsskólanum í Ostrava í Tékklandi. Verkefnið er styrkt af EES menntasjóðnum og er tvíhliða samstarf skólanna tveggja. Viðfangsefni verkefnisins er notkun á stafrænum miðlum í fjölbreyttu samhengi og ber það yfirskriftina Digital technologies without borders.