Hæfni – Ábyrgð – Virðing – Vellíðan
Þrettán nemendur úr 2-A héldu á vit ævintýranna fyrr í mánuðinum og heimsóttu Slóveníu. Förinni var heitið til bæjarins Tolmin, krúttlegt fjallaþorp, staðsett mitt í dal umkringt fjöllum, skógum og ósnertri náttúru. Ferðin heyrir undir starfsemi Erasmus+ og er samstarfsverkefni þriggja landa, Slóveníu, Íslands og Portúgal. Höfðu íslensku nemendurnir tekið á móti þeim slóvensku fyrir jól og var nú komið að endurgjalda greiðann og upplifa þeirra heimahaga.
Auka opið hús verður miðvikudaginn 29. mars fyrir þá sem ekki gátu heimsótt skólann 9. mars.
Boðið verður upp á klukkutíma heimsókn í skólann þar sem nám skólans og félagslíf verður kynnt og boðið verður upp á Verzlólestina sem fer um skólann. Þá verður hægt að ná tali af starfsmönnum skólans og kynna sér sérstaklega einstaka námslínur.
Boðið verður upp á tvær kynningar þennan dag. Sú fyrri klukkan 16:00 og sú seinni klukkan 17:00.
Í marsmánuði er hátíð franskrar tungu haldin hátíðleg um allan heim og af því tilefni var haldin um helgina hin árlega frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla í húsakynnum Alliance française, Tryggvagötu.
Keppnin var haldin í samvinnu Félags frönskukennara á íslandi, Sendiráðs Frakklands á Íslandi og Alliance française á Íslandi.
Þema keppninnar í ár var "Qu‘est-ce que la France, le français et la francophonie pour toi ?" eða "Hvað er Frakkland, franska og frönskumælandi samfélag fyrir þér?"
Var keppnin tvískipt, 8 myndbönd komu úr grunnskólum og 12 úr framhaldsskólum.
Keppendur tóku flutning sinn upp á myndband og mátti leika sér með formið að vild; myndskreyta, leika, syngja og dansa. Myndbandið mátti ekki vera styttra en 3 mínútur og ekki lengra en 5 mínútur.
Þrír nemendur úr 2.D unnu til verðlauna fyrir framúrskarandi myndband en það voru þeir Martin Halldórsson, Nói Pétur Á. Guðnason og Steinar Sverrir Ragnarsson.
Voru þeir vel að verðlaununum komnir og óskum við þeim innilega til hamingju.
26 nemendur og tveir kennarar þeirra frá Gymnasiet HHX i Skjern og Gymnasiet HHX i Ringkøbing í Danmörku hafa verið í heimsókn hjá 1-S á mánudag og þriðjudag. Þetta er Erasmusverkefni þar sem nemendur vinna saman ýmis verkefni, bæði á ensku og dönsku. Einnig fóru nemendur í hópum á hina ýmsu staði í Reykjavík og kynntu svo afrakstur ferðarinnar í máli og myndum hér í skólanum.
Dönsku nemendurnir gistu heima hjá okkar íslensku nemendum eina nótt og síðan er stefnt að því að 1-S fari í heimsókn til Danmerkur í haust. 1-S hélt glæsilegt Pálínuboð í lok dags í gær þar sem boðið var upp á gómsætar veitingar. Allir kvöddust saddir og sælir og fullir tilhlökkunar fyrir endurfundum í haust.