Hæfni – Ábyrgð – Virðing – Vellíðan
Þessa vikuna sýna 15 nemendur í 1.B afrakstur síðustu mánaða í hönnun í Gallerí FabLab á 4. hæð. Þar má nefna laserskorin verk í bland við fatnað með vínylfilmum. Þau hafa unnið með marga miðla og sýningin er mjög fjölbreytt. Kennarinn þeirra er Kristín Dóra Ólafsdóttir.
Þýskuþraut framhaldsskólanna var haldin nú í mars og gaman er að segja frá því að Snæfríður Eva Eiríksdóttir nemandi í 2-Y sigraði þyngdarstig 1, en 112 nemendur víðs vegar af landinu tóku þátt.
Í verðlaun hlaut hún 10 daga dvöl í Þýskalandi í sumar á Eurocamp í Dessau- Rosslau, en þar hittist ungt fólk frá 44 löndum í Evrópu og upplifir ævintýri saman.
Auka opið hús verður miðvikudaginn 29. mars fyrir þá sem ekki gátu heimsótt skólann 9. mars.
Boðið verður upp á klukkutíma heimsókn í skólann þar sem nám skólans og félagslíf verður kynnt og boðið verður upp á Verzlólestina sem fer um skólann. Þá verður hægt að ná tali af starfsmönnum skólans og kynna sér sérstaklega einstaka námslínur.
Boðið verður upp á tvær kynningar þennan dag. Sú fyrri klukkan 16:00 og sú seinni klukkan 17:00.
Þrettán nemendur úr 2-A héldu á vit ævintýranna fyrr í mánuðinum og heimsóttu Slóveníu. Förinni var heitið til bæjarins Tolmin, krúttlegt fjallaþorp, staðsett mitt í dal umkringt fjöllum, skógum og ósnertri náttúru. Ferðin heyrir undir starfsemi Erasmus+ og er samstarfsverkefni þriggja landa, Slóveníu, Íslands og Portúgal. Höfðu íslensku nemendurnir tekið á móti þeim slóvensku fyrir jól og var nú komið að endurgjalda greiðann og upplifa þeirra heimahaga.