JAR103

Jarðfræði er fræðigrein sem tilheyrir náttúruvísindum. Hún fjallar um hinn lífvana heim jarðarinnar. Vettvangur jarðfræðinnar er jarðskorpan en viðfangsefnin eru tvíþætt og skiptist því jarðfræðin í tvær megingreinar: annars vegar hin innrænu og útrænu öfl og hins vegar jarðsöguna. Fjallað…

Jarðfræði er fræðigrein sem tilheyrir náttúruvísindum. Hún fjallar um hinn lífvana heim jarðarinnar. Vettvangur jarðfræðinnar er jarðskorpan en viðfangsefnin eru tvíþætt og skiptist því jarðfræðin í tvær megingreinar: annars vegar hin innrænu og útrænu öfl og hins vegar jarðsöguna. Fjallað verður um helstu þætti þessara tveggja megingreina. Innrænu öflin taka á innri gerð jarðar, landreki og flekum jarðskorpunnar, jarðskjálftum, eldsumbrotum, jarðhita, möttulstrókum og heitum reitum. Bergtegundir jarðskorpunnar og hringrás efnis fellur einnig undir þessa umfjöllun. Útrænu öflin fjalla um landmótun af völdum veðrunar, vatns og hafs. Þau fjalla einnig um lofthjúpinn og áhrif veðurfarsbreytinga á jarðskorpuna. Jarðsagan rekur í tímaröð atburði og breytingar sem orðið hafa á jörðinni, jafnt af völdum innrænna sem útrænna afla, svo og sögu lífveranna. Kynntar verða kenningar um uppruna jarðar, tímatal jarðar og helstu megineinkenni hvers tímabils. Sérstök áhersla verður lögð á jarðsögu Íslands, aldur landsins og myndun þess. Breytingar á loftslagi, sjávarstöðu, dýralífi og gróðurfari hér á landi fær sérstaka umfjöllum með tilvísun í landafræði landsins.

Lokapróf 70% og vinnueinkunn 30%. Til að vinnueinkunn reiknist inn í lokaeinkunn þarf nemandi að hafa leyst 45% lokaprófsins rétt.

  • Meginmarkmið áfangans er að nemendur geri sér grein fyrir umfangi jarðfræðinnar sem fræðigreinar. · að nemendur skilji og viti hvenær jörðin varð til, hvernig hún myndaðist,þekki innri lagskiptingu hennar og efnasamsetningu · að nemendur þekki helstu steintegundir og bergtegundir jarðar · að nemendur kunni flokkun helstu eldstöðva hér á landi og erlendis og geti gert greinarmun á þeim · að nemendur viti hvernig lofthjúpur og vatnshjúpur vinna saman og geti rakið hringrás vatns í náttúrunni · að nemendur kunni skil á háhita- og lághitasvæðum, þekki muninn þar á og átti sig á hagnýtingu jarðvarmans fyrir þjóð eins og Íslendinga · að nemendur viti hvernig orkugjafar á borð við kol, olíu og geislavirk efni myndast í náttúrunni og kunni skil á hvernig maðurinn hefur nýtt sér þessi efni · að nemendur geti unnið verkefni um mismunandi jarðfræðifyrirbæri og metið það út frá jarðfræðilegum og umhverfisfræðilegum forsendum · að nemendur þekki helstu gerðir nýtanlegra jarðefna hérlendis · að nemendur viti hvað umhverfismat er og hvaða hlutverki það gegnir við mannvirkjagerð · að nemendur skilji hugtökin jarðskjálftar og brotahreyfingar, átti sig á mikilvægi þess að geta spáð fyrir um náttúruhamfarir og tengsl þessara hugtaka fyrir tilvist mannsins · að nemendur þekki landrekskenninguna og þau fyrirbæri sem henni tengjast, svo sem fellingafjöll, myndbreytt berg, djúpsjávarrennur, sigdali, misgengi, möttulstróka og heita reiti · að nemendur skilji áhrif loftslags á landmótun og átti sig vel á hugtakinu veðrun · að nemendur þekki vel áhrif sjávar á landmótun jarðar · að nemendur þekki kenningar um uppruna og aldur jarðar auk tímatals jarðsögunnar · að nemendur þekki helstu einkenni hvers tímabils jarðsögu Íslands og geti rakið í stuttu máli jarðsöguna frá upphafi til dagsins í dag · að nemendur kunni góð skil á myndun og mótun Íslands, breytingar á gróðurfari, dýralífi og loftslagi og viti hver helstu megineinkenni landsins hafa verið síðustu 20 milljón árin

  • Kennslan fer að mestu leyti fram í fyrirlestraformi. Vettvangsferð er farin á haustönn um Reykjanesskagann þar sem kynnt er fyrir nemendum þau jarðfræðifyrirbæri sem koma fyrir í kennslubók. Ber nemendum að skila sérstakri ritgerð um ferðina þar sem fram koma helstu áfangastaðir ferðarinnar og einkenni þeirra. Gildir ritgerð þessi sem hluti af lokaeinkunn nemanda. Skyndipróf eru tvö.