HEIM2GR05

Heimspeki, grunnáfangi

Grunnáfangi

Saga heimspekinnar er uppfull af dæmum um frjóa hugsun og það hvernig hugmyndaauðgi og sköpunargleði getur skýrt viðfangsefni sem áður virtust þoku hulin. Í þessum áfanga í heimspeki fær nemandinn að kynnast nokkrum af þessum viðfangsefnum og ólíkum lausnum heimspekinga frá ólíkum tímum.

Nauðsynleg færni til að fást við hugmyndir heimspekinganna er rökleikni og mikilvægt markmið áfangans er að efla rökræðu- og samskiptahæfni nemenda, bæði í ræðu og riti, en það má gera með þátttöku í umræðum um heimspekileg viðfangsefni, samningu rökfærsluritgerða og þjálfun í að greina málflutning fólks og röksemdir.

Lögð er áhersla á tengsl heimspekilegu hugmyndanna og rökleikni við veruleika nemenda. Með því móti er heimspekin bæði aðgengilegri og hagnýtari, en tengsl við eigið líf og menningu tryggir betur áhuga og samfellu í námi og hversdagslífi, og eykur líkur á að námið nýtist til frambúðar. Áfanginn getur þannig dýpkað og víkkað sýn á menningarsvið eins og kvikmyndir, dægurtónlist og bókmenntir, ásamt samskiptum, viðskiptum, stjórnmálum, trú og öðrum viðfangsefnum sem skoða má heimspekilega.

Fjölbreyttum aðferðum er beitt við kennsluna, nefna má: almennar umræður, umfjöllun um klípusögur, samlestur heimspekitexta, hópavinnu, fyrirlestra, heimspekikaffihús og verkefnavinnu.

Nemandi:

 • Þekki mikilvæg heimspekileg hugtök og hugmyndir úr heimspekisögunni, svo sem frummynd, hugmynd, réttlæti, lýðræði, dygð, afstæði, algildi, leikslokakenningu, reglusiðfræði, gildi, hughyggju, frumspeki, frelsi, trú, markhyggju og nautnahyggju.
 • Þekki til helstu heimspekinga sögunnar, svo sem Þalesar, Sókratesar, Platons, Aristótelesar, Ágústínusar, Tómasar frá Akvínó, Descartes, Montaignes, Leibniz, Spinozas, Lockes, Humes, Kants, Hegels, Schopenhauers, Mills, Nietzsches, Kierkegaards, Heideggers, Wittgensteins og Sartres.
 • Geri sér grein fyrir sérstöðu og margbreytileika heimspeki sem fræðigreinar.
 • Fái innsýn í sögulega þróun heimspekilegra hugmynda.
 • Öðlist samræðufærni, þ.e. að tjá sig, hlusta á aðra og vega eigin rök og annarra.
 • Þjálfist í lestri heimspekitexta.
 • Þjálfist í að endursegja og skýra textabrot.
 • Læri að beita gagnrýnu viðhorfi, til dæmis með því að greina rökskekkjur í fréttaflutningi og annarri orðræðu.
 • Geti tengt hugmyndir heimspekinnar við eigin veruleika.
 • Þekki til tengsla heimspeki og annarra sviða menningarinnar svo sem trúarbragða, lista og vísinda.

 • Verkefnaskil 50%.
 • Lokapróf 50%.

 • Heimspeki fyrir þig, eftir Róbert Jack og Ármann Halldórsson, Mál og menning 2008.
 • Ítarefni á veraldarvefnum.