NÁTT1EL05

Náttúrufræði, efna- og líffræði

Grunnáfangi fyrir allar brautir nema náttúrufræðibraut. Sjá nánar um hæfniviðmið í skólanámskrá VÍ. Námsmat kann að vera öðruvísi í fjarnámi og dagskóla.

Byrjunaráfangi í efna- og líffræði þar sem fjallað er um grunnþætti efnafræði og nokkur helstu viðfangsefni líffræði.

Í efnafræðihlutanum er megináhersla lögð á grundvallaratriði efnafræðinnar. Farið yfir uppbyggingu atóma og eiginleika frumefna, efnasambönd, efnablöndur og efnatengi. Fjallað verður um lotukerfið og rafeindaskipan sem og lífræn efni.

Í líffræðihlutanum er farið yfir grunnhugtök og líffræðilega ferla og fjölbreytileiki og flokkun lífvera kynnt. Skoðað verður samspil milli lífvera og umhverfis. Fjallað er m.a.  um frumur, lífræn efni og efnaskipti. Erfðir og erfðaefnið koma einnig til sögunnar þar sem skoðaðir eru litningar, gen og erfðir manna. Æxlun og fósturþroskun eru tekin til umfjöllunar auk þess sem fjallað verður um þróunarfræði. Stór hluti námsefnisins fjallar um lífverur jarðar þar sem farið er í hina ýmsu flokka lífvera auk þess sem fjallað er um grunnhugtök í vistfræði.

Efnafræðihlutinn: Saga vísindanna. Atómkenningin, atóm og sameindir, frumefni, lotukerfið, öreindir, samsætur, efnasambönd, efnajöfnur, sameindir, jónir, efnablöndur, efnahvörf, formúlumassi, mól og mólmassi.

Líffræðihlutinn: Nemendur þekki og geti sagt frá uppbyggingu frumna. Í því felst að geta útskýrt og greint frá helstu frumulíffærum og starfsemi þeirra innan frumunnar. Þekkja muninn á kjarnafrumum og dreifkjarnafrumum og þekkja frumuskiptingarnar mítósu og meiósu. Nemendur eiga að þekkja grunnhugtök erfðafræðinnar; arfgerð, svipgerð, ríkjandi og víkjandi einkenni, kynháðar erfðir og kyntengdar, stökkbreyting, litningar, gen og DNA. Nemendur eiga að geta útskýrt kynæxlun og kynlausa æxlun, kosti þeirra og galla og geta nefnt dæmi því til stuðnings. Nemendur þurfa einnig að þekkja mismunandi fósturgerðir; eggfóstur, gulufóstur og fylgjufóstur. Nemendur eiga að geta útskýrt hvað þróun er og nefnt dæmi um rök fyrir þróun. Þekkja Darwin og þróunarkenningu hans. Nemendur eiga að geta útskýrt flokkunarkerfi lífvera (tvínafnakerfið). Þekkja ríki dreifkjörnunga, frumvera, sveppa, dýra og plantna en í því felst að þekkja og geta útskýrt einkenni hvers ríkis sem og helstu flokkunareiningar viðkomandi ríkis. Nemendur eiga að þekkja og geta útskýrt gunnhugtök í vistfræði og útskýrt hvernig vistfræði tengir saman lífverur sín á milli annars vegar og hins vegar lífverur við umhverfið sitt. Þetta eru hugtök á borð við vistfræði, vistkerfi, líffélag, fæðukeðja, fæðuþrep, fæðuvefur, neytendur, frumframleiðendur, sjálfbær þróun og  vistfræðilegur píramídi.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • Grunnhugtökum efna- og líffræðinnar og sérstöðu greinanna.
 • Almennum rannsóknaraðferðum greinanna.
 • Grunnlögmálum, ferlum og orðfæri til að taka þátt í almennri umræðu um greinarnar.
 • Tengslum einstakra náttúru- og raungreina við heilbrigði og velferð.
 • Órofa samspili náttúru, umhverfis, efnahags og samfélags.
 • Sjálfbærni og sjálfbærri þróun.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • Setja fram og túlka einfaldar myndir og gröf.
 • Vinna sjálfstætt við framkvæmd verklegra æfinga og geta útskýrt niðurstöður út frá fyrirmælum, verkseðli eða úr heimildum.
 • Tengja á milli stærðfræði og raungreina til úrlausnar verkefna.
 • Geta tengt heilbrigði við velferð.
 • Tengja sjálfbærni við ferli í náttúrunni.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • Leggja gróft mat á upplýsingar sem tengjast efna- og líffræðilegum viðfangsefnum í samfélaginu á gagnrýninn hátt.
 • Tengja undirstöðuþekkingu í efna- og líffræði við daglegt líf og umhverfi og sjá notagildi hennar.
 • Afla sér frekari þekkingar á efna- og líffræðilegum viðfangsefnum.
 • Nota rannsóknartæki efna- og líffræðinnar.
 • Sýna sjálfstæði við að miðla niðurstöðum úr verklegum æfingum og geta útskýrt og dregið ályktanir af niðurstöðunum.
 • Geta tengt saman efnisþætti við úrlausn viðfangsefna.
 • Beita skipulegum aðferðum og skráningu við úrlausnir verkefna.
 • Tengja þætti einstakra náttúru- og raungreina við daglegt líf, eigið heilbrigði og umhverfi.
 • Ræða og útskýra sjálfbærni á lýðræðislegan og fordómalausan hátt.

Námskeiðið byggist upp á glærum og fyrirlestrum á neti, spurningum og dæmum til upprifjunar á eftir hverjum kafla. Auk þess eru verkefni og gagnvirk próf.

Lokapróf: 80%, Annað námsmat: 20%.
Nemandi þarf að hafa lokið prófi með lágmarkseinkunn 4,5 áður en vinnueinkunn reiknast inn í lokamat.

 • Í fyrri hluta (efnafræði): Námsefni sem er vistað í kennslukerfinu:  “Efni og orka” eftir Benedikt Ásgeirsson, Ingu Dóru Sigurðardóttur, Inga Ólafsson og Ólaf Halldórsson.
 • Í seinni hluta (líffræði): Bókin “Almenn líffræði” eftir Ólaf Halldórsson.