VÉLR 1FI 02 - Vélritun, fingrasetning

Grunnáfangi

Sjá nánar um hæfniviðmið í skólanámskrá VÍ. Námsmat kann að vera öðruvísi í fjarnámi og dagskóla.

Áfangalýsing

Vélritun 101 er ætlaður byrjendum í vélritun og inniheldur hann fjórar lotur, eða Verk001 til Verk022.

Í áfanganum er farið í allt hnappaborðið. Byrjað er á léttum fingraæfingum og æfingar þyngdar smátt og smátt. Í síðustu tveim verkefnunum í 4. lotu er farið sérstaklega í merki og tölur.

Hraðapróf (lotupróf og lokapróf) eru fimm mínútna próf sem tekin eru tvisvar sinnum og gildir hið betra. Einkunn sem gefin er fyrir hraðapróf fer eftir fjölda orða á mínútu að frádregnum villum.

Lotupróf eru tekin í lok hverrar lotu, til að meta stöðu nemanda.

Farið er línulega í gegnum áfangann, frá fyrsta verkefni að lokaprófi. Einnig eru í áfanganum leiðbeiningar og skýringar við þá þætti námsefnisins þar sem þörf er á. Þennan hluta námsefnisins eiga nemendur að lesa vel og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar koma fram.

Í því augnamiði að stuðla að því að nemendur tileinki sér réttar vinnustellingar og vinnuferli, er leiðbeiningum skotið inn með reglulegu millibili í námsferlinu. Þar er leiðbeint um réttar vinnustellingar og hléæfingar sem gott er að gera til að koma í veg fyrir þreytu, bakverki og aðra óæskilega fylgikvilla við tölvuvinnu.

Haft var að leiðarljósi við textagerð

 • að nemendur læri smátt og smátt á allt hnappaborðið og að æfingar séu einfaldar framan af en þyngist smátt og smátt.
 • að nemendur læri á allt hnappaborðið með því að vélrita á fleiri tungumálum en íslensku, svo sem ensku, þýsku, dönsku, spænsku, frönsku og latínu.
 • að æfingarnar innihaldi spakmæli og orðtök á fyrrnefndum tungumálum.
 • að nemendur æfi stafsetningu, bæði í íslenskum og erlendum tungumálum, um leið og þeir læra vélritun.
 • að æfingar séu jákvæðar og fræðandi.
 • að í námsefninu sé góð framvindustýring þar sem nemendur taka próf eftir hverja lotu og bæði nemendur og kennarar geti fylgst með framvindunni.

Markmið

 • að nemendur læri rétta fingrasetningu
 • að nemendur noti blindskrift
 • að nemendur vélriti með jöfnum áslætti
 • að nemendur nái lágmarkseinkunn 5 á lokaprófi

Námsmat

 • Lokapróf gildir 70% af lokaeinkunn
 • Verkefni gilda 30% af lokaeinkunn