2. A á flakki um Ítalíu

Vikuna 25. október – 1. nóvember voru nemendur í 2. A á ferðalagi á Ítalíu í fylgd tveggja kennara. Ferðin hófst með sólarhringsdvöl í Róm þar sem sögufrægar minjar á borð við Colosseum, Spænsku þrepin, Pantheon og Trevi gosbrunnurinn voru skoðaðar. Eftir þessa ferð hélt hópurinn til þorpsins Atri í Abruzzohéraði þar sem ungmenni úr samstarfsskóla Versló tóku á móti nemendum og hýstu þau meðan á dvölinni stóð. Dagskráin var afar fjölbreytt og sameinaði vinnu og skoðunarferðir um svæðið. Nemendurnir frá skólunum tveimur unnu verkefni sem miðuðu að því að bera saman stjórnsýslu og menningu landanna tveggja meðal annars matarvenjur þar sem íslenski hópurinn bauð upp á þjóðarrétt Íslendinga ,,Eina með öllu.” Meðal ferða sem hópurinn fór í voru hjólaferð um hinar fögru sveitir Abruzzo, kajakferð um tærustu á Ítalíu og heimsókn að Rocca Calascio kastala frá 11. öld þar sem stórmyndin The Name of the Rose var meðal annars tekin upp. Enn fremur var boðið upp á matreiðslunámskeið þar sem nemendur fengu að búa til pasta frá grunni eftir aldagamalli aðferð. Ferðin var samstarfsverkefni milli skólanna tveggja og er styrkt af Erasmus+ og munu nemendur taka á móti ítölsku nemendunum á vordögum og kynna fyrir þeim íslenska menningu og skólastarf.

Aðrar fréttir