
Parísarferð
Dagana 23. til 28. janúar fór 24 manna nemendahópur sem er með frönsku sem 3. tungumál ásamt kennara og námsráðgjafa til Parísar.
Heimsóttur var menntaskólinn Lycée Albert de Mun í 7. hverfi borgarinnar og áttu nemendur í samskiptum við jafnaldra sína í skólanum, unnu verkefni og fengu innsýn og upplifun í það hvernig það er að vera í frönskum menntaskóla. Nemendur fóru síðan í skoðunarferðir víðs vegar um borgina.
Parísardaman leiddi nemendur um Mýrina fræddi þau um sögur og byggingar borgarinnar, farið var í Louvre, Sigurbogann, gengið var að Sacré Cœur og yfir að Place du Tertre og þaðan niður Montmartre hæðina, farið að Operu Garnier og í Musée d‘Orsay.

Demó - lagasmíðakeppni
Demó, lagasmíðakeppni Verslunarskóla Íslands var haldin miðvikudagskvöldið 25. janúar í Bláa sal skólans. Keppnin var hin glæsilegasta í alla staði og skein ljós keppenda skært. Fjögur atriði voru flutt og voru þau hvort öðru betra. Keppendur voru Eva K. Cassidy með lagið I´ll be mine, Dóra og döðlurnar með lagið Líða fer að vetri, Ingunn María með lagið Á meðan og Viktor&Jason með lagið Þyrnirós. Dómararnir sem fengu það erfiða hlutverk að velja sigurvegara kvöldsins voru Sigga Eyrún, Benni Brynjólfs og Elín Hall. Kynnar kvöldsins voru fyrrum nemendur skólans Gunnar Hrafn og Katla Njálsdóttir. Eftir æsispennandi keppni stóð Ingunn María uppi sem sigurvegari en Dóra og döðlurnar voru val salarins. Demónefndin undir stjórn Katrínar Ýrar sá um allt skipulag keppninnar. Það er nokkuð ljóst að framtíðin er björt hjá þessum hæfileikaríku nemendum.

Hópur frá Tékklandi í heimsókn
Vikuna 16.-20. janúar tóku 15 nemendur í 2-S á móti jafnstórum hópi frá Hello framhaldsskólanum í Ostrava í Tékklandi. Verkefnið er styrkt af EES menntasjóðnum og er tvíhliða samstarf skólanna tveggja. Viðfangsefni verkefnisins er notkun á stafrænum miðlum í fjölbreyttu samhengi og ber það yfirskriftina Digital technologies without borders.

Breytingar á fjarvistarskráningum
Breytingar á fjarvistarskráningum taka gildi á þessari önn. Markmiðið er að færa allar skráningar í INNU.
Þegar tilkynnt er um fjarveru er hægt að velja veikindaskráningu eða leyfisskráningu.
Frádráttur fyrir fjarveru vegna veikinda eða leyfis verður 0,5 stig. Nánari upplýsingar um verklagið er að finna hér

Verzlunarskóli Íslands fær nýtt útlit
Nú standa yfir viðamiklar endurbætur á skólabyggingu Verzlunarskóla Íslands þar sem húsið verður endursteinað með gráum tónum og öllum gluggum skipt út. Þessar breytingar færa Verzlunarskólanum nýja ásýnd og meira flæði og tenging myndast við viðbyggingu skólans.
Um þessar mundir er verið að skipta um alla glugga sem getur þýtt örlítið rask og truflun í kennslustofum. Tekin er ein kennslustofa á dag og flyst sá bekkur í stofu 101 rétt á meðan gluggaskiptin fara fram. Til þessa hafa framkvæmdir gengið ljómandi vel og nemendur skilningsríkir og samstarfsfúsir.
Nemendainngangurinn fær yfirhalningu með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða ásamt notalegu útisvæði með bekkjum þar sem nemendur geta notið sólarinnar á góðviðrisdögum. Aðalinngangur skólans (A) (beint á móti Borgarleikhúsinu) fær einnig breytt og bætt útlit. Að lokum verður útilýsing einnig bætt til muna.

Bóksala
Sala á bókum og heftum sem ekki eru seld í bókabúðum fer fram í gegnum vefverslun, smellið hér til að komast á réttan stað: