28. apr. 2023 : Komu, sáu og sigruðu

Rétt eins og undanfarin ár hafa nemendur í frumkvöðlafræði á þriðja ári tekið þátt í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla á Íslandi. Markmið áfangans er að nemendur þróa vöru og koma henni á markað. Að þessu sinni tóku allt að 700 nemendur þátt og stofnuð voru 160 fyrirtæki víðsvegar um landið. Í lok áfangans fer fram uppskeruhátíð í Arion banka þar sem veitt eru verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin ásamt öðrum verðlaunum fyrir sérstaka þætti.

Að þessu sinni komust 30 lið áfram í lokakeppnina og þar af voru 14 lið frá Verzlunarskóla Íslands. Nemendurnir stóðu sig með prýði og mætti segja að þau komu, sáu og sigruðu. Þau unnu til margskonar verðlauna ásamt því að taka öll fyrstu þrjú sætin (sjá betur hér að neðan).

Sigurliðið var Nómína með smáforrit sem hjálpar fólki að lesa launaseðla. Í þeim flotta hópi eru Dagný, Orri, Ólafur, Sandra, Össur og Tómas, öll í 3-G. Munu þau keppa fyrir hönd Íslands í Alþjóðlegri fyrirtækjakeppni í Tyrklandi í sumar.

Óskum við öllum nemendum og kennurum til hamingju með þennan frábæra árangur.

27. apr. 2023 : Rithöfundurinn Ragnheiður Gestsdóttir heimsótti nemendur

Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur heimsótti nemendur á 1. ári í morgun og ræddi við þá um ritstörf sín. Hún fjallaði m.a. um hvaða áskoranir það fæli í sér að skrifa skáldsögur, hvernig hugmyndir fæðast, mikilvægi sjónarhorns auk fleiri atriða á sviði ritlistar. Sérstakar umræður spunnust um skáldsöguna Blindu en nemendur lesa hana sem hluta af námsefni í íslensku á yfirstandandi önn. Þar voru ýmsar siðferðislegar sem heimspekilegar spurningar ræddar og ljóst að nemendur höfðu margir hverjir hugleitt efni hennar út frá ýmsum hliðum.

Ragnheiður Gestsdóttir hefur bæði skrifað og myndskreytt bækur fyrir börn og unglinga auk þess að vera höfundur þriggja glæpasagna. Hún fékk Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir skáldsöguna Farangur árið 2022. Bókin hefur einnig verið tilnefnd til norrænna glæpasagnaverðlauna.

Þess má til gamans geta að Ragnheiður fagnar 70 ára afmæli sínu á mánudag, 1. maí, með útgáfu nýrrar skáldsögu.

26. apr. 2023 : Kvistboltamót Harry Potter

Kvistboltamót Harry Potter áfangans var haldið í fundarhléinu í dag. Keppt var samkvæmt nýjum reglum sem ganga undir nafninu Versló reglurnar, en þær fela meðal annars í sér bann við tæklingum, en það fer misvel í leikmenn. Mótið var vel mannað starfsfólki, Rebekka og Óli Njáll voru línuverðir og Gylfi var sérstakur heiðursgestur í stúku en sá að auki um tímavörslu. Dómari og vitsuga mótsins var Ármann. Daði kom svo í hús úr fæðingarorlofi til að sinna hlutverki gullnu eldingarinnar og gerði það af stakri prýði og önnur eins hlaup hafa vart sést hér innandyra fyrr eða síðar. Hann er æviráðinn í starfið. Leikar fóru þannig að Ravenclaw vann Hufflepuff, Slytherin vann Gryffindor. Að lokum vann Slytherin nokkuð örugglega úrslitaleikinn, en það mun að líkindum þýða að Slytherin vinni vistabikarinn eftirsótta, en meira um það síðar hér á þessum vettvangi. 

Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands með Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandii

25. apr. 2023 : Góðgerðarráð VÍ styrkti UNICEF á Íslandi

GVÍ, Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands, hefur látið margt gott af sér leiða í gegnum árin. Til að mynda stóð GVÍ að því að reisa barnaskóla í Úganda, í samstarfi við ABC barnahjálp, sem fékk nafnið Litli Verzló.

Í ár var ákveðið að styrkja UNICEF á Íslandi með ýmsum áskorunum, til að mynda var gist í nemendakjallara skólans, nemendur unnu heilan skóladag við afgreiðslu í Matbúð og nemendur gengu í skólann alla leið frá Kjalarnesi. Jafnframt fengu tveir nemendur sér húðflúr, einn nemandi var á hjólaskautum heilan dag og nemandi litaði hárið á sér bleikt. Að auki fór fram sala á bakkelsi og haldið happdrætti. Samtals safnaðist 900 þúsund krónur sem Góðgerðarráð afhenti UNICEF á Íslandi.

Starfsmenn skólans eru afar stoltir af þessu flotta verkefni nemenda.

25. apr. 2023 : Jarðfræðiferð

Nemendur í jarðfræði á eðlisfræðibraut á 1. ári fóru í jarðfræðiferð um Reykjanesið síðastliðinn miðvikudag. Það gekk á með sudda og þoka var nær allan tíman en það eyðilagði þó ekki upplifun nemenda á að skoða hina einstöku jarðfræði sem finna má á Reykjanesi. Nýja hraunið frá Geldingagosinu 2021 vekur sérstaka athygli með fallegum hraunreipum. Þar sem enn mikill hiti er inn í hrauninu standa gufustrókar víða upp úr sprungum í hrauninu með einstökum steindaútfellingum sem munu hverfa með tímanum. Upplifun nemenda af náttúru og jarðfræði landsins er mikil og njóta þeir hafa að gott aðgengi nánast í bakgarðinum. 

23. apr. 2023 : Nemendur tóku þátt í fyrirtækjakeppni í Lettlandi

Sex nemendur úr 3-F fóru til Riga í Lettlandi í vikunni og tóku þátt í fyrirtækjakeppni þar á vegum Ungra Frumkvöðla (Junior Achievement). Þar kynntu þeir vöruna sína sem er borðspil sem kallast Aur og Áhætta og er skemmtilegt spil fyrir ungt fólk sem gefur innsýn inn í hlutabréfamarkaðinn og kennir þátttakendum að beita grunnhugtökum í fjármálum og læra um helstu fjármálahugtök í leiðinni. Nemendurnir hönnuðu spilið sjálfir alveg frá grunni og sömdu allar spurningarnar.

20. apr. 2023 : Nemendahópur heimsótti Gaia í Portúgal

Vikuna 17.-21. apríl voru 11 nemendur úr 2.A ásamt kennurum sínum, Ingunni, Óla Njáli og Ármanni í Erasmus+ verkefnaviku í Gaia í Portúgal, en Gaia er systurborg Porto.

Vikan hófst með þátttöku í mikilvægum menningarviðburði heimamanna – stórleik Porto gegn Santa Clara – sem okkar menn unnu 2-1! Í forrétt þann dag var boðið upp á handboltaleik gegn ABC Braga, sem heimamenn unnu að sjálfsögðu örugglega. Stemmingin á leiknum var algjörlega frábær og bæði grjótharðir fótboltaaðdáendur og hinir sem hafa minni þekkingu og reynslu á því sviði skemmtu sér konunglega.

19. apr. 2023 : Sumardagurinn fyrsti

Á morgun 20. apríl er sumardagurinn fyrsti og skólinn því lokaður.

Gleðilegt sumar!

18. apr. 2023 : Verslingar sigruðu Greindu betur

Greindu betur, liðakeppni í tölu-og upplýsingalæsi, fór fram í annað sinn nú fyrir skemmstu. Tveir vaskir verslingar á öðru ári báru sigur úr býtum í framhaldsskólahluta keppninnar, þeir Bjarki Freyr Sigurðarson og Róbert Dennis Solomon. Liðstjóri var Anna Hera Björnsdóttir, stærðfræðikennari við skólann.

Í fyrri hluta keppninnar svöruðu þeir spurningum um þekkingu á tölfræði og upplýsingum frá Hagstofu Íslands og Evrópsku hagstofunni (Eurostat). Í seinni hlutanum gerðu þeir sjálfstætt verkefni sem byggði á gögnum frá Hagstofu Íslands. Bjarki Freyr og Róbert Dennis völdu að kynna sér gögn um covid faraldurinn og ferðaþjónustuna. Þeir fundu til ýmislegt áhugavert um efnið á vef Hagstofunnar, unnu úr þeim tölfræðiúrvinnslur og settu saman í skýrslu.

Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn.