Á slóðum helfararinnar

Rúmlega 100 nemendur skólans lögðu land undir fót í dymbilvikunni og heimsóttu Pólland og Þýskaland ásamt kennurum sínum og skólastjóra. Ferðin er hluti af söguáfanganum “Á slóðum helfararinnar“ hvar nemendur læra m.a. um helförina, síðari heimsstyrjöld og nasismann.

Stærstan hluta ferðarinnar dvaldi hópurinn í Kraká í góðu yfirlæti. Fjölmargar skoðunarferðir voru farnar, má þar nefna Wieliczka saltnámurnar og Schindlersafnið en aðaldagskrárliðurinn var dagsferð í útrýmingabúðirnar í Auschwitz, helsta minnisvarðann um glæpi nasista.

Óvæntur dagskrárliður bættist við þegar íslenska knattspyrnulandsliðið vann góðan sigur á Ísraelum og ljóst að liðið myndi spila umspilsleik við Úkraínu um sæti á Evrópumótinu. Þar sem leikurinn var haldinn í Wroclaw í Póllandi tók hópurinn sig til og mættu um 100 verzlingar á leikinn að styðja sína menn en það var rúmlega fimmtungur af Íslendingum á leiknum. Reyndist það hin besta skemmtun þótt úrslitin hafi ekki fallið með okkur að þessu sinni.

Undir lok ferðarinnar hélt hópurinn til Berlínar og skoðaði sögulegar slóðir, m.a. minnisvarðann um helförina, Brandenborgarhliðið og leifar Berlínarmúrsins áður en haldið var heim á leið.

Aðrar fréttir