Andlát

María Jóhanna Lárusdóttir, fyrrum íslenskukennari við Verzlunarskóla Íslands, lést þann 20. júní síðastliðinn. 

María Jóhanna eða Hanna Maja eins og hún var alltaf kölluð fæddist í Reykjavík 14. október 1946 og lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1966. Hanna Maja stundaði nám  í íslensku við Háskóla Íslands og hóf svo störf við Verzlunarskóla Íslands sem íslenskukennari árið 1972 og kenndi við skólann allt til ársins 2007. Hanna Maja var einstakur karakter sem kemur meðal annars fram í því að allir sem kynntust henni, hvort sem voru nemendur, kennarar, samstarfsmenn eða á hinu pólitíska sviði, muna allir vel eftir henni og gleyma henni aldrei. 

Hanna Maja var mjög farsæll kennari og mjög umhugað um hvoru tveggja, nemendur og íslenskuna. Hún var frumleg í sínum kennsluháttum og átti mjög gott með að glæða áhuga  nemenda. Það var til að mynda ekki óalgengt að heyra Maístjörnuna sungna hástöfum í tímum hjá henni svo að vel heyrðist fram á gang. Þegar skáldsögur voru greindar í kennslustundum hjá henni voru bókaklúbbar gjarnan stofnaðir í kjölfarið, sem svo héldu áfram löngu eftir að nemendur brautskráðust. 

Við minnumst Hönnu Maju með hlýhug og erum þakklát fyrir það mikla starf sem hún vann fyrir Verzlunarskólann. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Ólafi Ragnarssyni eftirlifandi eiginmanni og fjölskyldunni allri. 

Aðrar fréttir