19.12.2025 Andlát Það er með virðingu og þakklæti sem Verzlunarskóli Íslands minnist Ninnu Breiðfjörð Sigurðardóttur, fyrrum íþróttakennara við skólann, sem lést á dögunum. Ninna fæddist 29. júní 1938 og lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1957. Hún hóf störf við Verzlunarskólann árið 1958 sem stundakennari og fékk fastráðningu árið 1968. Ninna starfaði af einlægni og fagmennsku við skólann í áratugi og hafði jákvæð áhrif á kynslóðir nemenda. Hún lét af störfum vegna aldurs í ágúst 2003. Ninna var þekkt fyrir hlýju, gleði og óbilandi áhuga á velferð nemenda. Hún lagði metnað í að efla heilbrigðan lífsstíl og hreyfingu. Líklega kemur gleði og blak upp í hugann hjá mörgum fyrrum nemendum þegar þeir minnast Ninnu. Starf hennar var ómetanlegur þáttur í skólasamfélaginu og minningin um hana mun lifa áfram í hjörtum þeirra sem þekktu hana. Við sendum fjölskyldu og vinum Ninnu okkar innilegustu samúðarkveðjur.