Birting einkunna og upphaf næstu annar

Nú er komið að annarlokum á önn sem hefur reynt á alla. Lokanámsmat hefur farið fram og niðurstöður liggja fyrir. Opnað verður á einkunnir nemenda í INNU klukkan 20:00 í kvöld. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára sjá einnig einkunnir á INNU.

Þeir nemendur sem ekki ná tilskildum árangri í einstaka greinum eru sjálfkrafa skráðir í endurtektarpróf  sem lögð verða fyrir 4.-6.janúar. Próftafla endurtektarprófa mun birtast hér á heimasíðunni mjög fljótlega.

Við minnum á skólareglur varðandi námsframvindu en þar segir að nemandi hafi þrjú tækifæri til að ljúka áfanga, endurtektarpróf er tækifæri númer 2, hvort sem nemandinn nýtir endurtökuréttinn eða ekki. Þeir sem ekki ná að ljúka áfanga í endurtöku þurfa að skrá sig í fjarnám skólans í viðkomandi áfanga og taka hann samhliða dagskólanum á vorönn.

Skólabyrjun er samkvæmt skóladagatali 4. janúar og þann dag geta nemendur orðið sér úti um þær bækur sem ekki fást í bókabúðum. Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu 5. janúar. Stundatöflur fyrir hvern bekk verða aðgengilegar á INNU von bráðar.

Nú er langþráð jólafrí framundan. Við hvetjum nemendur til að nýta það vel og safna kröftum fyrir komandi önn sem mun að öllum líkindum hefjast eins og sú sem er nú að baki. Allar upplýsingar um hvernig skólabyrjun verður háttað verður hægt að nálgast á heimasíðu skólans, þegar við höfum fengið þær upplýsingar frá yfirvöldum. 

 

Stjórnendur skólans senda ykkur bestu óskir um gleðilega hátíð með kærri þökk fyrir dugnað og þrautseigju ykkar á önninni sem er að líða. 

Aðrar fréttir