Brautskráning 2022

Brautskráning stúdenta frá Verzlunarskólanum fór fram laugardaginn 28. maí við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Skólinn var settur í hátíðarbúning þar sem útskriftarnemendur skreyttu heimastofur sínar og myndir af útskriftarnemendum voru settar á veggi skólans. Að þessu sinni brautskráðust 333 nýstúdentar frá Verzlunarskólanum. Eftir að útskriftarefnin höfðu tekið við prófskírteinum sínum fóru þau og forráðamenn þeirra í íþróttahús skólans og áttu notalega samverustund saman til að fagna áfanganum.

Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri, flutti nemendum kveðjuorð sín þar sem hún lagði áherslu á hversu vel nemendur og kennarar hefðu staðið sig síðustu þrjú árin þegar veiran skæða kom í veg fyrir að skólaganga þeirra yrði hefðbundin. Kennarar þurftu að tileinka sér rafrænar lausnir til náms og kennslu og nemendur snéru þá bökum saman og hjálpuðu hvort öðru t.d. með streymi til þeirra sem ekki komust í skólann vegna sóttkvíar eða einangrunar. Við mjög erfiðar aðstæður náðu starfsmenn skólans að gera hluti sem aðrir litu til. Sama má segja um félagslífið, en þegar það var lítið sem ekkert lögðu nemendur höfuðið í bleyti, hugsuðu í lausnum og létu ekkert stoppa sig. Guðrún Inga hvatti nemendur til að halda áfram á sömu braut þar sem þrautseigja og elja myndi koma þeim langt.

Að vanda var úthlutað úr VÍ 100 sjóðnum en hann var stofnaður í tilefni af 100 ára afmælis skólans. Fyrrverandi nemendur skólans lögðu fé í sjóðinn og í skipulagsskrá fyrir sjóðinn segir m.a. að árlega skuli hann styrkja valda nemendur með fjárframlagi, þegar þeir flytjast milli bekkja eða ljúka stúdentsprófi. Skal við það miðað að styrkþegar hafi sýnt afburða námsárangur eða lagt verulega af mörkum til skólastarfsins á annan hátt.

Dúx skólans var Helgi Hrannar Briem í 3-I. Hlaut hann bókagjafir og námsstyrk.

Semidúxinn var Ómar Ingi Halldórsson 3-H og hlaut hann bókagjöf og námsstyrk.

Nemendur með 9,5 og hærra fengu einnig bókagjafir og námsstyrk og voru það eftirfarandi nemendur:

Nafn Bekkur
Birgitta Ósk Úlfarsdóttir 3-X
Fríða Margrét Almarsdóttir 3-Y
Kristína Katrín Þórsdóttir 3-F
Sæmundur Árnason 3-X
Klara Margrét Ívarsdóttir 3-R
Dagur Þórisson 3-B
Dagur Brabin Hrannarsson 3-Y
Margrét Rán Rúnarsdóttir 3-U

Jafnframt voru veitt verðlaun fyrir bestan námsárangur að loknu  1. og 2. ári og voru það eftirfarandi nemendur:

Nafn Bekkur
Ragna María Sverrisdóttir  1-X
Alexander K. Bendtsen  2-Y

Skólinn óskar öllum brautskráðum nemendum skólans innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Aðrar fréttir