Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í kennslu

Verzlunarskóli Íslands hefur um árabil tekið þátt í erlendu samstarfi með styrkjum frá Evrópusambandinu.

Styrkjakerfið gengur nú undir nafninu Erasmus+. Árin 2018 til 2021 var Verzlunarskólinn í forystu fyrir verkefni á vegum þess sem nefndist Technology in Education and Every Day Life – The Path to Digital Citizenship, oftast stytt í TIE. Samstarfsskólarnir sem voru í þessu tilviki fimm talsins voru frá fimm mismunandi löndum, þ.e.  Slóveníu, Frakklandi, Þýskaland, Portúgal og Tyrklandi. Einn fundur var haldinn í hverju landi og sóttu hann bæði nemendur og kennarar frá öllum þátttökuskólum.

Þema verkefnisins var að undirbúa nemendur fyrir líf sem stafrænir borgarar en eins og allir vita gegna tölvur og internetið sífellt stærra hlutverki í lífum okkar. Í hverjum fundi fóru því fram vinnustofur sem tengdust þessu þema og var það frábært tækifæri bæði fyrir nemendur og kennara til að kynnast því starfi sem er að eiga sér stað í samstarfsskólunum sem eru oft æði ólíkir. Ekki var síður mikilvægt að fá að kynnast og mynda tengsl við kennara og nemendur í hinum löndunum.

Nú um daginn vann TIE verkefnið til verðlauna sem framúrskarandi Erasmus+ verkefni ársins 2023 en verðlaunin eru veitt af Erasmus+ og Rannís. Var það mikill heiður fyrir þátttakendur í verkefninu að hljóta þessa viðurkenningu. Fyrir hönd þeirra tóku Sigríður Tryggvadóttir, upplýsingatæknikennari, og Hallur Örn Jónsson, sögu- og alþjóðafræðikennari, við verðlaununum úr höndum sendiherra ESB á Íslandi Lucie Samcóvu – Hall Allen og forstöðumanni Rannís Ágústi Hirti Ingólfsson við hátíðlega athöfn þann 14. nóvember sl. Fyrir þá sem komu að verkefninu hér í Verzlunarskólanum er það að sjálfsögðu afar ánægjulegt að fá svona klapp á bakið og virkar þetta að sjálfsögðu sem hvatning að halda áfram á sömu braut.

Heimasíðu verkefnisins má svo skoða hér að neðan:

https://erasmustie.weebly.com/

Aðrar fréttir