Ferð nemenda í þýsku til Berlínar 15. – 19. apríl

25 nemendur úr þýsku á 2. ári ásamt tveimur kennurum lögðu land undir fót eldsnemma á mánudagsmorgni til Berlínar.

Þegar þangað var komið var farið rakleitt til Hohenschönhausen þar sem hópurinn fékk leiðsögn um Stasi fangelsið. Það var mjög áhrifarík heimsókn og ógleymanlegar sögur sem nemendur fengu að heyra.

Nóg var á dagskránni næstu daga en þar má m.a. nefna skólaheimsókn í menntaskólann Droste-Hülshoff sem staðsettur er í suður Berlín. Þar fengu nemendur okkar leiðsögn um skólann og sátu svo tvær kennslustundir. Eftir hádegishlé var komið að kynningum um Verzló og Ísland og óhætt er að segja að nemendur okkar hafi gert það af mikilli fagmennsku.

Nemendur okkar fengu leiðsögn um minningarreit Berlínarmúrsins í Bernauerstraße, en þar hófst bygging múrsins og svo var farið upp í  sjónvarpsturninn og helstu kennileiti í Berlín skoðuð. Nemendur nýttu ýmis tækifæri til þess að æfa sig í þýskunni og gekk bara nokkuð vel að þeirra sögn. Það var ekki annað að sjá en að nemendur hafi verið ánægðir með ferðina og voru alls staðar til mikillar fyrirmyndar hvar sem þeir komu.

Aðrar fréttir