Frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla

Í marsmánuði er hátíð franskrar tungu haldin hátíðleg um allan heim og af því tilefni var haldin hin árlega frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla. Að þessu sinni var hátíðin sérlega vegleg þar sem Félag frönskukennara á Íslandi fagnaði 50 ára afmæli. Hátíðin var haldin í Veröld – húsi Vigdísar í samvinnu við námsgrein í frönskum fræðum við Mála- og menningardeild HÍ, Félags frönskukennara á Íslandi, Sendiráðs Frakklands á Íslandi og Alliance française á Íslandi.  

Nemendur úr Landakotsskóla sungu nokkur lög á frönsku, boðið var upp á crêpes, afmæliskökur og kaffi og hlustað var á ljúfa tóna hljómsveitarinnar Les Métèques, auk þess var hægt að kynna sér námsframboð í frönsku bæði á Íslandi og erlendis. 

Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðraði samkomuna með nærveru sinni og Sendiherra Frakklands á Íslandi Guillaume Bazard veitti verðlaun í myndbandasamkeppni nemanda. Þema keppninnar í ár var « J‘aime…» eða Ég elska… Var keppnin tvískipt, 2 myndbönd komu úr grunnskólum og 21 úr framhaldsskólum. Keppendur tóku flutning sinn upp á myndband og mátti leika sér með formið að vild; myndskreyta, leika, syngja og dansa.  Myndbandið mátti ekki vera styttra en 3 mínútur og ekki lengra en 5 mínútur.  

Þrír nemendur úr 2.H unnu til sérstakra verðlauna fyrir frumsamið lag en það voru þeir Jakob Már Österby Ævarsson, Styrmir Jónsson og Þorkell Breki Gunnarsson.

Voru þeir vel að verðlaununum komnir og óskum við þeim innilega til hamingju.

Aðrar fréttir