Heimsókn Alþjóðabekkjar til Brussel 11.- 15. febrúar

Partýlestin lagði af stað frá Leifstöð og lenti í Brussel snemma sunnudagsmorgun. Eftir stutta viðveru á flugvellinum var farið beinustu leið upp á hostel og þar næst var ferðinni heitið í gönguferð um hverfið sem við gistum í.

Fararstjórn var auðvitað í boði okkar uppáhalds, Huldu og Kristófers. Í þessari gönguferð sáum við margt merkilegt eins og listigarðinn Mont des arts, Grand place, húsið þar sem Karl Marx skrifaði Kommúnistaávarpið og pissustrákinn.

Á öðrum degi vöknuðum við hress, skoðuðum Atomium þaðan var haldið til Norges hus, en þar er íslenska sendiráðið með aðsetur. Í sendiráðinu tóku starfsmenn á móti okkur og héldu kynningu um störf sendiráðsins í Brussel og svöruðu spurningum okkar. Eftir heimsóknina í sendiráðið gengum við yfir á Parlamentarium safnið. Þar skoðuðum við sögu Evrópu og Evrópusambandsins en það voru einnig gagnvirkar stöðvar þar sem hægt var að gera ýmislegt eins og senda Evrópu óskir og æfa sig í að kjósa.

Á þriðja degi fórum við í EFTA house og þar fengum við kynningu um EFTA og störf þess. Síðan var förinni heitið að höfuðstöðvum NATO og þar vorum við tekin í gagngera öryggisskoðun sem má líkja við ef þú værir að fara inn í fangelsi. Eftir hina miklu öryggisskoðun fórum við á skrifstofu fastanefndar Íslands og þar hittum við fjölmiðlafulltrúann Paul King sem ræddi við okkur um starfsemi NATO og stöðu heimsmálanna. Á eftir honum komu fulltrúar íslensku fastanefndarinnar og sögðu okkur frá hlutverki Íslands í NATO og við enduðum heimsóknina með göngutúr um höfuðstöðvar NATO. Seinna um kvöldið tók bekkurinn sig svo saman og eyddi fallegri kvöldstund í að syngja saman í karaoke.

Á fjórða degi tókum við lest til Brugge. Í borginni höfðum við frjálsan tíma og nýttum hann meðal annars til að kanna staðhætti og versla. Það stoppuðu allir meðlimir hópsins á veitingastaðnum House of the Waffle og fengu sér vöfflu. Um fimmleitið var förinni svo heitið aftur heim, þó ekki án erfiða en það stóð dansandi fólk í rauðum bolum fyrir utan lestarstöðina að reyna knúsa fólk. Einstaklingar bekkjarins tóku misvel í þessi Valentínusar hátíðarhöld þeirra.

Loksins rann heimferðardagur upp og fengum við þann lúxus að mæta seinna í morgunmat og það nýttu sér allir. Síðan hentumst við beinustu leið í Uber og upp á völl. Við kvöddum þar með sólina í Brussel og fórum aftur heim í kuldann og hitavatnsleysið.

3-A

Aðrar fréttir