Hópur nemenda í Færeyjum

Dagana 15.– 22. apríl sl. dvaldi hópur nemenda á fyrsta ári í Færeyjum og tók þátt í sameiginlegu verkefni Verzlunarskólans, menntaskólans í Kambsdal í Færeyjum og Tietgen-verslunarmenntaskólans í Óðinsvéum.

Nemendurnir gistu á heimilum með færeyskum menntaskólanemum sem búsettir eru vítt og breytt um Austurey og á nálægum eyjum.

Dagskrá færeysku gestgjafanna var óvenju metnaðarfull en meðal annars var boðið upp á kennslu í róðri, sem er þjóðaríþrótt Færeyinga, sýnisför um verksmiðjur Bakkafrosts, stærsta vinnuveitanda eyjanna, kennslu í færeysku, heimsókn á skrifstofur lögmanns Færeyja, leiðsögn um listasafnið í Þórshöfn og þannig mætti lengi telja.

Þetta skemmtilega verkefni er rétt að hefjast, því umræddir nemendur Verzlunarskólans munu nú í byrjun haustmisseris halda til Óðinsvéa ásamt Færeyingunum og loks munu Danirnir og Færeyingarnir koma hingað til lands í janúar á næsta ári.

Dagskráin fór að mestu leyti fram á dönsku og gengu samskiptin vel. Nemendur Verzlunarskólans voru skólanum til mikils sóma og nutu samverunnar með dönskum og færeyskum félögum. Með í för voru Hulda Hvönn Kristinsdóttir stærðfræðikennari og Björn Jón Bragason lögfræðikennari.

Aðrar fréttir