Jöfnun hlutfalls kynja í Verzlunarskólanum

Í anda jafnréttissjónarmiða og umræðu um jafna stöðu kynjanna í samfélaginu, og þá sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu o.fl., þá hefur verið ákveðið að frá og með vori 2021 verður áfram tekið inn í skólann á grundvelli einkunna við lok grunnskóla, þó þannig að aldrei verði fleiri en 60% af einu kyni meðal nýnema.

Nokkuð hefur verið rætt um stöðu drengja í skólakerfinu hér á landi. Þar hefur m.a. verið bent á að stúlkur komi almennt með hærri einkunnir úr grunnskóla og að möguleikar drengja séu ekki þeir sömu og stúlkna við val á framhaldsskólum. Þetta kemur m.a. fram í því að hlutfall drengja sem ljúka stúdentsprófi í framhaldsskólum á Íslandi verður stöðugt lægra og sama á við um þá sem ljúka háskólanámi. Undanfarin ár hefur hlutfall stúlkna sem sækja um skólavist í Verzlunarskólanum verið nálægt 60% á móti 40% drengja. Hins vegar hafa stúlkurnar almennt verið með hærri einkunnir en drengir og stúlkur því verið í miklum meirihluta meðal nýnema undanfarin ár. Drengir í hópi umsækjenda hafa eigi að síður haft prýðisgóðar einkunnir og uppfylla skilyrði fyrir inngöngu í skólann, þ.e. að vera með að lágmarki B í þeim greinum sem lagðar eru til grundvallar og eiga því fullt erindi í skólann.

Þegar bornar eru saman einkunnir nemenda við lok grunnskóla við meðaleinkunn á stúdentsprófi þá er engin fylgni þar á milli, hvorki meðal stúlkna eða drengja.

Samkvæmt reglugerð um innritun í framhaldsskóla skal inntaka nemenda grundvallast á einkunnum við lok grunnskóla og verður áfram miðað við þær en þó með þeim takmörkunum að í hópi nýnema fari hlutfall hvers kyns ekki yfir 60% innritaðra nemenda.

Aðrar fréttir