23.06.2022 Lok innritunar 2022 Innritun í Verzlunarskólann fyrir komandi skólaár er lokið. Alls bárust 747 umsóknir, 569 sem val 1 og 178 sem val 2. Innritaðir voru 363 nemendur frá 60 grunnskólum víðs vegar af landinu. Við val á nemendum var að öllu leyti stuðst við þau viðmið sem skólinn hefur sett sér varðandi inntöku nýnema. Horft var til námsmats úr grunnskóla og var bókstöfum varpað í tölustafi samkvæmt kvarða sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Nánar er hægt að lesa um innritunarviðmið hér. Þá var horft sérstaklega til jöfnun kynjahlutfalls meðal nýnema og þess gætt að hlutfall hvers kyns færi ekki yfir 60% innritaðra nemenda. Hæsti stigafjöldi sem hægt er að fá samkvæmt reiknireglu skólans er 24 stig eða A í öllum greinum sem horft er til. 63 umsækjendur voru með A í öllu eða 17% innritaðra. 270 umsækjendur voru með 23 stig eða hærra eða 74% innritaðra. Þetta er sama hlutfall og í innritun 2021. Allir umsækjendur með 22,75 stig eða hærra komumst inn í skólann, annaðhvort inn á brautarval 1 eða 2. Skipting milli brauta er að einn bekkur verður á alþjóðabraut og einn bekkur á nýsköpunar- og listabraut. Sex bekkir á náttúrufræðibraut, fjórir þeirra á líffræðilínu og tveir á eðlisfræðilínu. Sex bekkir á viðskiptabraut, tveir á hagfræðilínu, einn á stafrænni viðskiptalínu og þrír á viðskiptalínu. Nemendur voru teknir inn á brautir og línur og er þeim raðað í bekki út frá þeim forsendum sem og tungumálavali. Öll sæti í öllum bekkjum eru fullskipuð og því er ekki hægt að taka á móti óskum nýnema um að skipta um bekk. Ef einhver afþakkar pláss verður skoðað í haust hvort tekinn verði inn nýr nemandi. Nemendur sem fengu ekki umsókn sína samþykkta við skólann geta óskað eftir því að fara á biðlista ef pláss losnar. Skráning á biðlista fer fram í gegnum netfangið verslo@verslo.is Starfsfólk Verzlunarskólans hlakkar til að taka á móti nýjum nemendum á nýnemakynningu skólans, föstudaginn 19. ágúst. Nánari upplýsingar um tímasetningu koma hingað inn á síðuna í byrjun ágúst. Bestu óskir um gleðilegt sumar!