Lok innritunar vor 2018

Nú er innritun í Verzlunarskólann lokið. Alls bárust 642 umsóknir,  488 sem val 1 og 154 sem val 2. Í ár voru 325 nemendur innritaðir á fyrsta ár. Fleiri nemendur eru teknir inn nú í ár en í fyrra, en það stafar af því að nú í vor útskrifuðust tveir árgangar frá skólanum vegna styttingar náms til stúdentsprófs, þ.e. fyrstu nemendur í nýju þriggja ára námi og síðasti árgangurinn í fjögurra ára námi. Það er alltaf sárt að þurfa að hafna góðum nemendum en vonandi eru allir, sem ekki komust í Verzló, sáttir við sinn varaskóla, enda eru allir framhaldsskólar landsins góður valkostur.

Eins og síðastliðið vor þá fengu nemendur einkunnir gefnar í bókstöfum: A, B+, B, C+, C og D við lok grunnskóla. Þegar umsóknir nemenda voru metnar þá var reiknaður út stigafjöldi fyrir hvern og einn umsækjanda þar sem notast var við tölur frá Menntamálastofnun, sbr. það sem sjá má hér að neðan:

A B+ B C+ C D
4 3,75 3 2,75 2 1

 Þetta er eingöngu gert til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna. Þær greinar sem horft var á við innritun voru: stærðfræði, íslenska, danska (eða eitthvert annað Norðurlandamál), enska, samfélagsfræði og náttúrufræði. Stigafjöldi var síðan reiknaður út með eftirfarandi hætti: stærðfræði og íslenska með tvöfalt vægi og síðan voru valdar tvær hæstu einkunnir af hinum fjórum. Allir nemendur með hærra en B í öllum greinum voru skoðaðir. Hámarksstigafjöldi var 24, þ.e. nemandi með A í öllum greinum og lágmarkstigafjöldi 18, þ.e. nemandi sem var með B í öllum greinum. Í mörgum tilvikum var erfitt að velja á milli nemenda og var þá eftirfarandi haft í huga:

  • kynjahlutfall
  • þátttaka í félagsstarfi
  • einkunnir í öðrum greinum
  • annað sem gat skipt máli varðandi umsóknina.

Af þeim sem voru teknir inn voru 195 nemendur með 23 stig eða meira og 38 nemendur á bilinu 22 til 21 stig. Umsækjendur komu frá 68 mismunandi grunnskólum á landinu en þeir sem voru teknir inn koma frá 57 grunnskólum. Tekið var inn á brautir og niðurstaðan var eftirfarandi:

  • alþjóðabraut                                         1 bekkur
  • nýsköpunar- og listabraut            1 bekkur
  • náttúrufræðibraut                             6 bekkir
  • viðskiptabraut                                       5 bekkir.

 Starfsfólk Verzlunarskólans óskar öllum ánægjulegs sumars.

Aðrar fréttir