Nemendahópur heimsótti skólann Salesianos á Spáni

Stór hópur spænskunema á 2. ári lagði upp í ferð að heimsækja skólann Salesianos á Spáni vikuna 9.-16. mars. Skólinn sem var heimsóttur er staðsettur í smáborginni Cartagena í Murcia héraði á Spáni. En Cartagena er yfir 3000 ára gömul borg og er næst elsta borg Spánar.

Ferðalagið hófst á laugardegi og var því fyrsti heili dagur ferðarinnar sunnudagur. Dagurinn var nýttur í fjögra tíma skoðunarferð um borgina með leiðsögumanni. Hópurinn sem samanstóð af 50 nemendum úr nær öllum bekkjum Verzlunarskólans var skipt upp í tvo hópa, hvor hópur um sig með leiðsögumann.

Á mánudagsmorgun var skólinn Salesianos heimsóttur, þar var tekið mjög vel á móti hópnum af hópi kennara og nemenda. Íslensku nemendurnir voru búnir að undirbúa kynningar og myndbönd til að sýna og kynna í skólanum. Á meðal umfjöllunarefna var kynning á; Verzló, Reykjavík, eldfjöllum og Íslandi. Eftir kynningarnar fóru spænsku nemendurnir, kennararnir og skólastjórinn með hópinn og nemendum sýndur skólinn og labbað um skólalóðina. Skólinn Salesianos er kaþólskur skóli og var því merkilegt að fá að fara inn í kirkjuna sem er á skólalóðinni og nemendur sækja reglulega. Eftir skoðunarferðina var boðið upp á þriggja rétta máltíð í mötuneytinu og var Paella þar sem aðalréttur. Restin af heimsókninni eyddu spænsku og íslensku nemendurnir saman.

Næstu dagar fóru í borgarferð til Alicante, skoðunarferð á ströndina La Manga þar sem tíminn var nýttur í að setja nemendur í spænskutíma og hópefli. Ratleik um Cartagena, skoðunarferð um Museo romano og rústir af hringleikahúsi frá tímum Rómverja skoðað.

Það sem stendur uppi fyrir okkur kennarana sem fóru með í ferðina er hversu duglegir og fljótir nemendur voru að byrja að tala spænsku, sjá nýja hópa og vináttu myndast milli nemenda frá ólíkum námsbrautum og hversu jákvæðir og áhugasamir nemendurnir voru í að kynnast tungumáli og menningu Spánar.

Aðrar fréttir