Nemendur í frönsku skiptast á heimsóknum við frönsk ungmenni

Dagana 13.-19. mars dvaldi 21 manna nemendahópur ásamt þremur kennurum í bænum Pontivy á Bretagne-skaga. Dvöldu nemendur sem allir eru með frönsku sem 3. mál, hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum og siðum, auk þess sem þeir þjálfuðu færni sína í tungumálinu.

Farið var í skoðunarferðir til Mont Saint Michel, sem er klaustur staðsett á lítilli eyju í Normandie, farið var til Carnac, Saint Goustan og Vannes. Nemendur fengu kennslu í matreiðslu þar sem matreitt var franskt sjávarfang, einnig fengu nemendur kennslu í skylmingum undir handleiðslu fyrrverandi Ólympíufara Frakka.

Tekið var á móti nemendum í ráðhúsi bæjarins og þau fengu leiðsögn um Pontivy. Vel var tekið á móti hópnum en verið var að endurgjalda heimsókn franskra ungmenna til Íslands í október 2023. Nemendur voru sammála því að álag fylgir því að taka þátt í svona verkefni, en um leið eru svona heimsóknir lærdómsríkar og gefandi fyrir þátttakendur.

Aðrar fréttir