Nemendur í frönsku skiptast á heimsóknum við frönsk ungmenni

Dagana 15. til 23. september dvaldi 21 manna nemendahópur ásamt tveimur kennurum í borginni Rennes á Bretagne skaga. Nemendur sem allir eru með frönsku sem 3. mál, dvöldu hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum og siðum, auk þess sem þau þjálfuðu færni sína í tungumálinu.
Farið var í skoðunarferðir til Mont Saint Michel, sem er klaustur staðsett á lítilli eyju í Normandy rúmlega einn kílómetra frá norðurströnd Frakklands. Miðaldabærinn Fougière var heimsóttur, farið var til eyjarinnar Bréhat, borgin Rennes var skoðuð auk þess sem nemendur sátu í frönskum kennslustundum.
Vel var tekið á móti hópnum en verið var að endurgjalda heimsókn franskra ungmenna til Íslands í mars 2017. 
Nemendur voru sammála um það að álag við að taka þátt í svona verkefni væri töluvert en það væri þess virði þar sem svona heimsóknir eru mjög lærdómsríkar og gefandi.

 

Aðrar fréttir