Norskir nemendur heimsóttu skólann

Í síðustu viku tóku nemendur úr 2. H á móti fimm nemendum frá Noregi, nánar tiltekið frá Numedal Videregående Skole. 

Hópurinn kom hingað með það að markmiði að fjalla um hinn merka konung Magnús Lagabæti og sameiginlega sögu Íslands og Noregs. Þar sem norsku nemendurnir höfðu  nýlokið lestri á Gunnlaugs sögu Ormstungu og íslensku nemendurnir klárað yfirferð á Egils sögu Skalla-Grímssonar var borðleggjandi að flétta þessar sögur saman. Náskyldu tungumálin, íslenska og norska voru borin saman, fjallað um rúnirnar og varðveislu þeirra og hvernig þær lifa enn með ýmsum hætti hjá þjóðunum tveimur. Nemendunum var boðið í Fablabið til Kristínar Dóru og hönnuðu minjagrip og skáru út rúnir sem eiga að veita fjárhagslega velsæld, blómlegt ástarlíf,  heilsu og hamingju. Þjóðminjasafnið var heimsótt og þar var rýnt í gamla muni sem eiga rætur í sameiginlegri fortíð þjóðanna. Vopnabúrið og miðaldabúningarnir vöktu mikla lukku hjá krökkunum. Íslensku nemendurnir fóru með nýju vini sína í ratleik um miðbæ Reykjavíkur þar sem helstu kennileiti voru kynnt fyrir þeim ásamt íslensku sælgæti sem gladdi munn og maga gestanna. Hefðbundið flatbökuboð var í skólanum og sund og ísbíltúramenning okkar sló í gegn hjá gestunum. Eins og alltaf stóðu krakkarnir okkar sig frábærlega og er mikil tilhlökkun að endurgjalda heimsóknina næsta vetur.  

Aðrar fréttir