Ólafur Ragnar ræddi loftslagsmál við NGK-nemendur

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hitti nemendur í norræna NGK-bekknum í Græna sal miðvikudaginn 4. maí. Ólafur ræddi um mikilvægi Norðurslóða í baráttunni við loftslagsbreytingar og um hlutverk Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, sem hann átti frumkvæði að stofnun árið 2013.

 

Ólafur sagði umræðuna um lofslagsbreytingar oft flókna en að málefni norðurslóða og örlög íssins á heimskautasvæðum væru lykilinn að skilningi. „Rafbílar eru ágætir en úrslit í þessari baráttu munu ráðast á þáttum eins og hvernig orkuskipti í húshitun og -kælingu munu ganga í stórborgum Afríku og Asíu,“ sagði Ólafur. Ef ekki takist fullkomin orkuskipti í öllum heiminum muni það leiða til gífurlegrar bráðnunar íss sem aftur muni hækka sjávarstöðu um allt að sex metra og hamfaraveður verði sífellt tíðari.

Að fyrirlestri loknum gaf Ólafur nemendum tækifæri á að bera upp spurningar. Þeir vildu gjarnan fá að vita meira um ábyrgð Grænlands og hlutverk Hringborðs Norðurslóða. Þá var því varpað fram hvort ekki væri ósanngjarnt af Íslendingum að gera kröfu á önnur ríki í ljósi þess hve aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum væri auðvelt hér. Ólafur sýndi nemendum skilning en útskýrði jafnframt að nútímatækni gæfi öllum ríkjum tækifæri til að nýta sér margt af því sem hér er gert, til dæmis að hita hús sín með vatni af lághitasvæðum.

Lesa má meira um Arctic Circle á heimasíðunni ArcticCircle.org.

Aðrar fréttir