Parísarferð

Í stað þess að hittast í Verzlunarskólanum, eins og við gerum flesta miðvikudagsmorgna, hittumst við í 2.A uppi á Keflavíkurflugvelli að morgni þess 6. mars 2024.

Þó við hefðum vaknað fyrir allar aldir var fólk flest eldhresst en ofar öllu spennt fyrir því að vera að fara til hinnar einu sönnu Parísarborgar til að taka þátt í Alþjóðaverkefni með frönsku félögum okkar, sem höfðu dvalið heima hjá okkur síðastliðinn janúar. Með okkur komu okkar traustu fararstjórar, Guðný Laxdal enskukennari með meiru og Hulda sögusérfræðingur. Öll vorum við himinlifandi þegar flugvélin lækkaði flugið yfir sólríkri Parísarborg – enda höfðum við ekki séð sólina almennilega í marga mánuði. Það glitti í grænt gras og páskaliljur, fuglar sungu og loftslagið var mun hlýrra en heima. Veðrið í París átti hins vegar eftir að súrna sífellt eftir því sem leið á ferðina, en það er algert aukaatriði.
Eftir að hafa tekið klassískt manntal sáu Guðný og Hulda fyrir því að við færum rakleiðis upp í rútu sem fór beinustu leið með okkur í hjarta Parísar. Glæsilegi samstarfsskólinn okkar, Fénelon Sainte Marie, var staðsettur í áttunda hverfinu í París, en eftir að hafa dást að gömlu byggingarlistinni og hönnun hans vorum við leidd niður í kjallara skólans, sem reyndist vera leikhússalur. Frakkarnir settu upp öskudagssýningu sem fékk okkur heldur betur til að flissa, en eftir sýninguna héldum við heimleiðis til fósturfjölskyldna okkar fyrir vikuna.

Á fyrsta degi var tekið vel á móti okkur í franska skólanum með íslenskum fána og fullt af frönsku bakkelsi – sem við áttum eftir að fá nóg af í ferðinni. Síðan héldum við í lest sem tók okkur alla leið út úr borginni í Versali. Eftir að hafa spásserað um í fallegu görðunum og fengið okkur bita að borða í bjórgarðinum fengum við að fara inn í höllina, sem var jafnvel enn glæsilegri innanfrá. Þar fengum við að dást að þúsundum frægra málverka, hinum heimsfræga speglasal og mörgu fleiru. Eftir að hafa skellt í eitt konunglegt viðtal fyrir íslensku fjölmiðlana sá Guðný Laxdal til þess að við fengjum þá konunglegu fræðslu sem heimsóknin boðaði.

Dagur tvö átti að boða heimsókn í Louvre-safnið, en eftir að hafa virt stórfengilegu þríhyrningabygginguna fyrir okkur að utan kom í ljós að okkur vantaði enn aðgangsmiða. Sú heimsókn beið því betri tíma og í staðinn fyrir myndlistargláp héldum við í mollin – sem reyndust nokkuð góður kostur líka. Þegar við hittumst svo við Eiffelturninn eftir hádegi fréttum við að lyfturnar væru okkur ekki aðgengilegar, svo stigarnir voru eina leiðin upp. Við klifum ótal tröppur og tókum tugi þúsunda skrefa á hverjum degi í ferðinni, en allt var þetta þess virði enda útsýnið úr turninum stórkostlegt og borgin stórfengleg.

Eftir viðburðaríka helgi kunnum við þeim mun betur á borgina og seinni hluta ferðarinnar vorum við farin að rata um París sjálf. Á mánudeginum héldum við því í skólann eins og heimamenn og sátum í kennslustundum með frönsku félögum okkar fyrir hádegi, en eftir hádegi gerðum við aðra tilraun til þess að fara á Louvre safnið. Sú tilraun heppnaðist heldur betur og við fengum að sjá hina heimsfrægu Monu Lisu með eigin augum. Þar á eftir skoðuðum við Notre Dame kirkjuna, en eins og margir vita brann stór hluti hennar í apríl 2015. Þar af leiðandi gátum við ekki séð hana í alvöru en fengum samt sem áður frábært innlit í sögu og byggingu hennar í gegn um sýndarveruleikaferðalag sem spannaði allt frá byggingu kirkjunnar, í gegnum brunann og til nútímans. Við mælum sérlega með þessari sýningu.

Á seinasta degi héldum við í Invalides til að sjá gröf Napoleons en einnig til að heimsækja glæsilega hersafnið sem hafði verið sett upp þar. Á safninu lærðum við meðal annars um seinni heimsstyrjöldina og nasisma sem átti sérstaklega við þar sem efnið hafði verið tekið fyrir í sögutímum hjá Huldu kennara fáeinum vikum fyrr. Miðvikudagur rann upp og við borðuðum seinasta bakkelsið, tókum lestina í eitt skipti í viðbót og héldum síðan upp í rútu. Eftir að hafa kvatt skólann og frakkana okkar héldum við heim á leið. Þrátt ævintýralega og viðburðaríka viku í París vorum við býsna þakklát fyrir hreina loftið og bragðgóða vatnið heima á klakanum.

Fréttina skrifaði Elín Snæfríður Maximiliansdóttir Conrad í 2.A.

Aðrar fréttir