Valdimar Hergeirsson

Valdimar Hergeirsson, fyrrverandi yfirkennari Verzlunarskóla Íslands, lést þann 28. október síðastliðinn. Valdimar og Verzlunarskólinn áttu samleið í um hálfa öld. Hann hóf nám við skólann 1945 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1952. Að loknu stúdentsprófi lagði Valdimar stund á viðskiptafræði við Háskóla Íslands og háskóla í Bandaríkjunum. Árið 1960 var Valdimar ráðinn til starfa við Verzlunarskóla Íslands og lét af störfum sem yfirkennari árið 2000 sökum aldurs en sinnti ýmsum kennslustörfum til ársins 2004.

Sjálfur lýsti hann fyrstu kynnum sínum af Verzlunarskólanum þannig að árið 1945, þegar hann hóf nám við undirbúningsdeild skólans sem þá var við Grundarstíg, hafi hann komið á hjóli í skólann. Ekki vildi betur til en svo að hann týndi lyklinum að lásnum. Hann leitaði því til skólastjóra og bað um aðstoð. Skólastjóri sagði þá „Kannski kemst þú ekkert héðan. Ætli við sitjum ekki bara uppi með þig“. Það má segja að sú hafi verið raunin því Valdimar var tengdur skólanum í rúm 50 ár, fyrst sem nemandi í 7 ár og síðan sem kennari og yfirkennari í 44 ár. Þegar Valdimar var ráðinn að skólanum þá var það til að sinna kennslu og jafnframt að hafa umsjón og endurskoða námsefni í viðskiptagreinum í skólanum. Valdimar var mjög gagnrýninn á kennslu við skólann á þessum tíma og sagði að það skorti framsýni og að kennsluaðferðir væru staðnaðar.

Valdimar var dáður kennari en þótti oft kröfuharður og fara hratt yfir námsefnið. Fyrrverandi nemendur hans sögðu stundum að hann hefði skrifað á töfluna með annarri hendi og þurrkað út jafnóðum með hinni. Hann var þannig gerður að öllum þótti einstaklega vænt um hann, jafnt nemendum sem samstarfsmönnum. Það var áberandi undanfarin ár, þegar árlegur stúdentafagnaður var haldinn að þá spurðu eldri nemendur ætíð hvort Valdimar myndi ekki örugglega mæta. Jafnan myndaðist röð af fyrrum nemendum við borðið þar sem hann sat.

Við erum þakklát fyrir öll þau ár sem við áttum með Valdimar og þökkum fyrir það brautryðjendastarf sem hann skilaði skólanum.

Samúðarkveðjur frá Verzlunarskóla Íslands
f.h. starfsmanna Ingi Ólafsson skólastjóri

Aðrar fréttir