21.03.2011 Verzlunarskólanemendur á leið til Danmerkur Undanfarin ár hafa Verzlunarskólinn og Århus Købmandsskole unnið að samstarfsverkefni í formi nemendaskipta. Hefur bekkur frá Århus komið að hausti ár hvert til Íslands og nemendur úr Versló hafa síðan endurgoldið heimsóknina að vori. Þetta skólaár taka 32 nemendur í fjórða bekk þátt í þessu verkefni á vegum Verzlunarskólans. Þeir voru gestgjafar eins Dana í eina viku í byrjun október og verða síðan gestir á heimili Danans nú í mars. Hefur þetta verkefni alltaf tekist vel og hafa nemendur skólans verið skólanum til sóma bæði sem gestgjafar og sem gestir í erlendu landi. Að þessu sinni var lagt af stað sunnudaginn 20.mars og verður hópurinn alla næstu viku í Danaveldi. Nemendur heimsækja listasafnið Aros, lýðháskóla, arkitektskólann í Árósum og verslunarháskóla, fara til Óðinsvéa þar sem skoðað verður H.C. Andersen safnið ásamt Brands Klædefabrik, sækja fyrirlestur í skólunum, og fara í heimsókn inn í bekki svo eitthvað sé nefnt. Nemendur hafa unnið ýmis myndbönd með myndum og texta, um Reykjavík, menningu ungs fólks á Íslandi, skólann sinn og um dvöl Dananna á Íslandi. Verða þessi myndbönd bráðlega sett á heimasíðu skólans, undir erlend samskipti. Verzlunarskólinn óskar nemendum og kennurum góðrar ferðar og vonar að dvölin verðir ánægjuleg og lærdómsrík.