Verzlunarskóli Íslands hlýtur jafnlaunavottun

Verzlunarskóli Íslands starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til allra starfsmanna Verzlunarskólans. Markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með þessu á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni. Jafnlaunakerfi Verzlunarskóla Íslands hefur hlotið vottun frá vottunarstofunni iCert og í kjölfarið hefur Jafnréttisstofa veitt skólanum heimild til að nota Jafnlaunamerkið. Jafnlaunamerkið er skráð vörumerki og er því ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Skólinn hefur einnig hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem greinir hvort starfsmönnum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf, óháð kyni. Til að hljóta gullmerkið þarf launamunur kynjanna að vera undir 3,5%. Launagreining var framkvæmd á vormánuðum í skólanum og niðurstaða greiningarinnar var að launamunur kynjanna mælist vart eða innan við 1%.

Aðrar fréttir