Saga

Í samræmi við aðalnámskrá er kennd mannkynssaga og Íslandssaga í einu lagi. Byrjað er við uppruna mannsins og síðan raktar helstu breytingar sem verða á vegferð hans að því er varðar menningu, stjórnmál, efnahag og daglegt líf. Saga Íslands kemur inn sem hluti þeirrar sögu. Á félagsfræðabraut og viðskiptabraut er síðan kenndur áfanginn SAG303 sem er menningarsaga, með áherslu á sögu og menningu síðari alda.
Stefnt er að því að nemendur öðlist skilning á alþjóðlegu samfélagi með því að kynnast sögulegum bakgrunni þeirra fyrirbæra sem setja mest mark sitt á það og flest má rekja aftur í aldir og kunni skil á hinum ólíku þáttum sem mynda heimsmenningu nútímans; þ.á.m. framlagi Íslendinga. Í Íslandssöguhlutanum er ennfremur stefnt að því að nemendur öðlist skilning á því samfélagi sem þeir lifa í með því að afla sér þekkingar og skilnings á menningararfi þess, kjörum fólks á ólíkum tímum og þeirri hugmynda- og stjórnmálaþróun sem að lokum leiddi til nútímasamfélags á Íslandi.
Yfirsýn yfir þróun menningar, efnahags og stjórnmála gefur, vegna víðrar skírskotunar sögunnar, möguleika á að fá samhengi í þær upplýsingar sem nemendur fá í hinum ýmsu greinum skólans, svo og nauðsynlegan skilning á því umhverfi sem þeir lifa við í nútíð og næstu framtíð.

Lokamarkmið

Að nemendur

  • öðlist þekkingu á mismunandi tímabilum sögunnar og tilfinningu fyrir samfellu hennar, og fái þannig lifandi áhuga á fjölþættri notkun hennar í þjóðfélagsumræðu á öllum sviðum mannlegs samfélags.
  • öðlist skilning á megindráttum í sögulegri framvindu og geri sér grein fyrir samhengi ólíkra þátta í samfélagsheildinni, svo sem framleiðslu, menningar, stjórnmála, hugarfars, trúar og vísinda.
  • greini samhengi milli tímabila, menningarheima og þjóðfélagsgerða, og geti tengt sögu Íslands við sögu nágrannaþjóða.
  • geti metið sögulegar heimildir, söguleg álitamál og söguskoðun, og lýst frá misjöfnu sjónarhorni.
  • þjálfist í notkun þeirra miðla sem söguna geyma, svo sem kennslubókum, fræðibókum, uppsláttarritum, myndefni, og netslóðum.
  • geti komið frá sér söguþekkingu sinni og skilningi með fjölbreyttum hætti í skriflegum verkefnum, framsögum og í netheimum.

Kennsluhættir

Kennslan byggist á fyrirlestrum kennara, umræðum í tímum og verkefnavinnu nemenda. Í fyrirlestrum er nýtt efni reifað, reynt að greina samhengi og atburðarás og hugtök útskýrð, gjarnan með dæmum með tilvísun til samtímans eftir því sem tök eru á. Nemendur og kennarar ræða síðan efnið, ýmist með frjálsum hætti eða með því að ræða niðurstöður skipulagðrar verkefnavinnu. Verkefnavinna nemenda skiptist að jafnaði í tvennt; smærri verkefni, ýmist unnin í tímum eða með heimavinnu, þar sem niðurstöður verða ýmist skrifleg skilaverkefni eða til umræðu í tímum og síðan stærri verkefni sem nemendur leysa með heimavinnu, ýmist hver fyrir sig eða í hópum. Niðurstöður eru síðan skriflegar til kennara og/eða að nemendur gera sjálfir grein fyrir þeim í tímum. Notkun myndefnis, til skilningsauka og ólíkrar nálgunar er stór þáttur í kennslunni. Mjög færist í vöxt að tölvunet skólans sé notað bæði við fyrirlögn, sem og úrlausn verkefna, auk þess sem netið er notað til að koma efni á framfæri við nemendur.