Spænska

Spænska er móðurmál 350 milljón manna í fimm heimsálfum og er sífellt mikilvægari, t.d. í Bandaríkjunum. Samskipti Íslands og Spánar eru mikil, t.d. í ferðaþjónustu og viðskiptum. Samskipti við Mið- og Suður-Ameríku hafa aukist verulega undanfarin ár og íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl, t.d. í Mexíkó og Chile.

Fyrir utan hagnýtt gildi þess að kunna spænsku þá hefur þekking á menningu spænskumælandi landa aukist um allan heim og er Ísland þar ekki undanskilið. Þetta má merkja af auknum áhuga Íslendinga á tónlist, kvikmyndum, bókmenntum, matargerðarlist og venjum þessara þjóða, ásamt ýmsu öðru og hefur þetta orðið til þess að sífellt fleiri Íslendingar læra spænsku.

Lokamarkmið

Að nemendur:

  • hafi öðlast nægan orðaforða til að tjá sig munnlega og skriflega í samskiptum við spænskumælandi fólk við allar algengar aðstæður daglegs lífs
  • séu færir um að lesa og skilja spænska texta á eðlilegu ritmáli
  • hafi öðlast þekkingu á spænskri menningu og hinum víðáttumikla heimi spænskrar tungu
  • séu vel undirbúnir undir háskólanám og nám í spænskumælandi löndum

Námslýsing og kennsluhættir

Kennslan byggist á bóklegri kennslu og einnig er notast við myndbönd, skyggnur, snældur og tölvuforrit.

Fyrir hvern kafla er farið í málfræðiútskýringar. Nemendur útbúa orðalista, hlusta á hljóðsnældur, gera skriflegar og munnlegar æfingar í tímum. Nemendur fá jafnframt heimaverkefni til þess að hægt sé að fylgjast með árangri þeirra.
Nemendur eru látnir tjá sig munnlega um efni hvers kafla.
Með myndböndum og snældum er leitast við að auka skilning og talfærni nemanda.
Við spænskunám er stuðst við nútímaupplýsingatækni og kennsluforrit í spænsku.