Stærðfræði

Inngangur

Náttúrulögmálin, ýmis lögmál í viðskiptum og margir þættir í hinu daglega lífi verða ekki skýrðir nema með tölum. Kunnátta í meðhöndlun talna og óþekktra stærða er nauðsynleg hverjum manni. Stærðfræðin er það tæki sem frá örófi alda hefur fylgt manninum og veitt honum kost á að skýra það torræða. Þekking á stærðfræðihugtökum og þjálfun í beitingu þeirra er undirstaða t.d. verkfræði, efnafræði, lyfjafræði, viðskiptafræði, sálfræði, félagsfræði o.s.frv. Í stærðfræði læra menn öguð vinnubrögð og röksemdafærslu sem nýtist við hin ólíklegustu viðfangsefni.

Síendurtekin þjálfun í meðferð talna og skilningur á eiginleikum þeirra er öllum gott veganesti í starfi. Það er sama hvaða nám er að baki, þeir sem eru talnaglöggir eru eftirsóttir á vinnumarkaði. Færni og leikni í meðferð talna og ýmissa stærða eykur einnig sjálfstæði, bæði í leik og starfi.

Meginmarkmið

Markmið með kennslu í stærðfræði eru ótal mörg. Mikilvægi stærðfræði í hinum daglegu þáttum mannlegs lífs eru ekki öllum ljós. Tenging einfaldari sem flóknari ferla við stærðfræðina er ekki alltaf einföld og oft er þessi tenging þannig að mörgum finnst stærðfræði hvergi koma þar nærri. Þeir sem kynna sér stærðfræði og leggja sig fram við að skilja hana eiga oft og tíðum auðveldara með að sjá samspil hluta sem virðast með öllu aðskildir.

Markmiði með stærðfræðikennslu í Verzlunarskóla Íslands má skipta í tvennt :

  • kenna nemendum vinnubrögð sem eru í senn öguð og fáguð ásamt því að þeir geti rökstutt mál sitt með fullnægjandi hætti
  • veita nemendum þjálfun og undirbúning í notkun stærðfræðinnar þannig að þeir séu mjög vel búnir undir framhaldsnám í raungreinum og greinum sem byggja á aðferðafræði

Kennsluhættir

Viðurkenndar kennsluaðferðir í stærðfræði eru fjölmargar. Þær aðferðir sem kennarar nota mest eru fyrirlestrar og dæmatímar. Í fyrirlestrum er kynnt nýtt efni og reiknuð sýnidæmi. Þetta er hin hefðbundna töflukennsla. Um leið og farið er í nýtt efni þá er reynt að skapa virkni nemenda þannig að þeir tjái sig um efnið og öðlist með þeim hætti skilning á því. Í dæmatímum reikna nemendur og kennarinn gengur á milli. Oft er um hópvinnu nemenda að ræða. Auk þessara „hefðbundun“ aðferða er reynt að brjóta upp með t.d. þrautalausnum eða aðferðum í anda Piaget og Bruners. Í sumum bekkjum eru verkefni leyst með hjálp töflureiknis eða annarra sérhæfra forrita. Nemendur skila heimadæmum eins oft og kennaranum þykir þurfa. Reynt er að fá nemendur til að vinna og hugsa sjálfstætt og leysa verkefni án þess að kennarinn leysi þau beinlínis fyrir þá.