Ársskýrsla 2020-2021

Veturinn 2020-2021
Aðalfundur Foreldrafélags Verslunarskóla Íslands var haldinn miðvikudaginn 7. október 2020, Rannveig Klara Matthíasdóttir var fundarstjóri og Hrefna Hallgrímsfundarritari. Rannveig Klara Matthíasdóttir formaður lagði fram skýrslu stjórnar veturinn 2020-2021.

  • Dagskrá aðalfundar var skv. 4. gr. laga félagsins
  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins
  • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning og afgreiðsla hans
  • Lagabreytingar
  • Starfsáætlun lögð fram til kynningar og afgreiðslu
  • Kosning í stjórn félagsins
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Sjá nánari upplýsingar um aðalfund 2020 í fundargerð á heimasíðu skólans.

Eftirtaldir aðilar gáfu kost á sér í stjórn Foreldraráðs veturinn 2020-2021:
  • Rannveig Klara Matthíasdóttir – í stöðu formanns
  • Jóhanna Áskels Jónsdóttir – í stöðu gjaldkera
  • Hrefna Hallgríms – í stöðu ritara
  • Agnes Hildur Hlöðversdóttir
  • Dagný Björnsdóttir
  • Helga Ólafsdóttir
  • Kristín Skúladóttir
  • María Kristín Gröndal
  • Rakel Svansdóttir
  • Sigríður Stefanía Óskarsdóttir
  • Soffía Frímannsdóttir
  • Stefán Guðjónsson
  • Steinunn Jenný Skúladóttir
  • Tinna Ösp Arnardóttir

Þau Jóna Bergþóra Sigurðardóttir og Ólafur Már Ólafsson gáfu kost á sér til skoðunarmanna reikninga árið 2019 og voru þau skipuð til tveggja ára, og ljúka því störfum nú á haustmánuðum 2021. Við þökkum þeim fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Bæði stjórn Foreldraráðs og skipun skoðunarmanna var samþykkt einróma á aðalfundi 7. október 2020.

Skýrsla stjórnar 2020-2021
Fundir

Foreldraráð hélt þrjá formlega fundi á starfsárinu (frá 1. október 2020 – 30. september 2021), en sú hefð hefur skapast að allir meðlimir Foreldraráðsins eru boðaðir á fundi. Fundir voru haldnir 5. nóvember 2020, 9. febrúar 2021, 19. mars 2021 ásamt fjölda rafrænna samskipta og samráðsfunda á haustönn og vorönn þar sem samkomubann var sett á. Foreldraráðið taldi það mikilvægt að nýta rafræna fundi og samskipti í ljósi aðstæðna og var foreldraráðið einstaklega virkt og vakandi yfir skilaboðum sem koma á spjallsíðu ráðsins. Fundargerðir má finna á heimasíðu skólans ásamt skýrslu stjórnar. Stjórnendur skólans hafa ávallt verið okkur innan handar og hafa sótt fundi með okkur sé þess óskað af foreldraráðinu. Tveir slíkir fundir voru á árinu. Annar fundurinn var fjarfundur haldinn á TEAMS með þeim hætti að skólastjórnendur sátu fyrir svörum, en áhyggjufullir foreldrar óskuðu eftir slíkum fundi vegna stöðu nemenda á tímum heimsfaraldurs og niðurfellingu á staðkennslu. Forráðamönnum skólans stóð til boða að senda spurningar fyrir fram á skólastjórnendur sem svöruðu þeim á fyrrgreindum fjarfundi. Mikil ánægja var á meðal forráðamanna að hafa þennan hátt á, og það að foreldrarráð skólans sem og stjórnendur skyldu fara af stað fljótt og vel með slíkan fund. Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans situr fundi með skólanefnd skólans reglulega yfir veturinn. Einnig var fundað með forystu NFVÍ á árinu, þó ekki formlegur og því engin fundargerð rituð.

Ballgæsla og viðburðir

Það helsta sem að Foreldrafélagið stóð fyrir síðastliðið skólaár var meðal annars aðalfundur, fræðsla og gamanmál 7. október 2020 þar sem rúmlega 500 foreldrar og forráðamenn horfðu á streymi frá Bláa salnum, Anna frá samtökunum KVAN flutti erindi um seiglu og skuldbindingu nemenda á tímum heimsfaraldurs og lokaði Ari Eldjárn kvöldinu með gamanmáli. Foreldraráðið stóð því miður engar ballvaktir, en eins og vitað er voru engar samkomur hjá nemendum á vegum skólans líkt og hefð er fyrir sökum heimsfaraldurs. Viðburður fyrir forráðamenn sem innihélt fræðslu og gamanmál átti að vera í húsi á vegum Foreldrafélagsins á vormánuðum en vegna fjöldatakmarkana var honum aflýst.

Gjafir og styrkir

Foreldrafélagið styður þétt við bakið á svokölluðum Edrú potti sem að námsráðgjafar skólans halda utan um og gefur félagið 9 gjafabréf á hverjum viðburði, þ.e.a.s. 3 bréf eru eyrnamerkt hverjum árgangi. Foreldrafélagið styrkti Nemendafélag skólans á svokölluðu nýnemakvöldi sem haldið var til heiðurs nýjum nemendum skólans, árgangi 2004. En eins og gefur að skilja varð NFVÍ af þónokkrum tekjum sl. annir vegna niðurfellinga á viðburðum á tímum heimsfaraldurs. Foreldrafélagið greiddi fyrir fyrirlestur með Begga Ólafs, sem bar heitið „Lifðu þýðingarmiklu, heilsusamlegu og fullnægjandi lífi. Taktu ábyrgð“. Fyrirlesturinn var sendur út á nemendur og forsjáraðila þeirra á forvarnardegi grunn- og framhaldsskóla, 7. október 2020. Foreldrafélagið styrkti við Nemendafélag skólans svo hægt væri að senda út Vælið, sl. vor. Því miður var ekki hægt að halda þann viðburð með nemendur á staðnum og ákvað því Nemendafélag skólans að halda viðburðinn og streyma honum til nemenda. Kostnaður við streymi af þessu tagi var mikill og óskaði félagið eftir styrk. Foreldrafélagið samþykkti einróma að koma þar að, enda mikilvægt að styðja vel við félagslíf nemenda á tímum sem þessum, eða svokallað fjarfélagslíf eins og í þessu tilfelli Foreldrafélagið styrkti nemendur skólans með eftirstöðvum reiknings félagsins vor 2021, en eins og gefur að skilja voru eftirstöðvar á reikningi vegna niðurfellingar viðburða sökum heimsfaraldurs, og var eftirstöðvum á reikningi félagsins skipt jafnt á milli árganga:
-3. árið (árg. 2002) nýtti sína upphæð í að halda svokallað Galakvöld á sumarmánuðum, en hefð er fyrir þessu kvöldi á vorönn ár hvert hjá útskriftarnemendum en það féll niður á vorönn sökum samkomutakmarkana á tímum heimsfaraldurs.
-2. árið (árg. 2003) nýtti sinn styrk til Peysufataballs sem haldið var nú á haustmánuðum, en er vanalega haldið á vorin ár hvert hjá 2. árs nemendum.
-1. árið (árg. 2004) á inni sína upphæð og gerir árgangurinn ráð fyrir að nýta sinn styrk á sínum peysufatadegi nk. vor (2022).

Greiðsluseðlar

Valfrjálsir greiðsluseðlar voru sendir í heimabanka forráðamanna og voru heimtur góðar líkt og undanfarin ár, og gerir það okkur kleift að styðja vel við börnin okkar hér í skólanum, með þeim hætti sem talið hefur verið upp hér.

Komandi skólaár

Hér gefur að líta þau viðfangsefni sem að við stefnt er að á skólaárinu 2021-2022:

  • Öll hefðbundin störf Foreldrafélagsins
  • Fá hugmyndir frá foreldrum varðandi félagsgjöldin og hvernig þeim skuli best varið.
  • Foreldrar senda okkur ábendingar í gegnum fésbókina.
  • Halda reglulega fundi með stjórnendum skólans
  • Veita nemendum enn meiri stuðning í formi fræðslu og tengsla
  • Efla sjálfstyrkingu nemenda í formi námskeiða eða fyrirlestra í samstarfi við skólann
  • Halda gagnleg foreldrakvöld með framúrskarandi fræðslu
  • Efla edrúpottinn enn frekar!
  • Hafa gaman saman – góð samskipti í allar áttir, og langar mig sérstaklega að vekja athygli ykkar á liðnum Hvernig þeim skuli best varið!
Fésbókarsíða

Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu undanfarin ár. Markmið hennar er að gera störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Enn fremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra. Það er mismunandi hvað ratar þarna inn en foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni krakkanna, skólans og foreldra.

Lokaorð

Ég vil þakka einstöku og hugmyndaríku foreldraráði fyrir gott samstarf á skólaárinu sem er að líða, ásamt miklum þökkum til skoðunarmanna okkar. Einnig þakka ég stjórnendum skólans fyrir gott samstarf og leiðsögn sem og ómetanlegum námsráðgjöfum skólans sem búa ávallt yfir góðum ráðum, tillögum að fyrirlestrum sem henta okkar börnum og gjöfum sem að nýtast þeim í skólanum til að létta lund. Það var mikilvægt að styðja vel við okkar fólk og þá sérstaklega á þessum tíma, þegar þau voru einangraðri en vanalega sökum samkomubanns og takmarkana í skólahaldi. Vonandi sér nú fyrir endann á takmörkunum í staðkennslu og höftum á félagslífi nemenda. Stöndum þétt við bakið á börnum okkar og því hef ég óskað eftir því frá forráðamönnum að láta okkur í foreldraráðinu vita af fyrirlestrum eða öðru sem gæti hentað okkar börnum og sem að við gætum styrkt við.

Hafnarfjörður, október 2021
Rannveig Klara Matthíasdóttir formaður Foreldraráðs