Ársskýrsla 2021-2022

Veturinn 2021-2022

Aðalfundur Foreldrafélags Verzlunarskóla Íslands var haldinn 9. nóvember 2021, Sandra Dögg Árnadóttir var fundarstjóri og Hrefna Hallgríms fundarritari. Rannveig Klara Matthíasdóttir formaður lagði fram skýrslu stjórnar veturinn 2020-2021.

 

Starfsárið hófst með foreldrakvöldi í kjölfar aðalfundarins. Fræðslufyrirlestur þar sem Guðrún Dóra Bjarnadóttir, geðlæknir flutti erindið Pillupopparinn. Sóli Hólm skemmtikraftur var með uppistand. Vegna Covid-19 faraldurs var fundinum varpað af NFVÍ.

Fundir

Foreldraráð hélt þrjá formlega fundi á starfsárinu (frá 1. október 2021 – 30. september 2022), en sú hefð hefur skapast að allir meðlimir Foreldraráðsins eru boðaðir á fundi. Fundir voru haldnir í október 2021, nóvember 2021 og febrúar 2022 og ásamt fjölda rafrænna samskipta og samráðsfunda á haustönn og vorönn þar sem samkomubann og takmarkanir voru af og á allan veturinn. Foreldraráðið taldi það mikilvægt að nýta rafræna fundi og samskipti í ljósi aðstæðna og var foreldraráðið einstaklega virkt og vakandi yfir skilaboðum sem komu á spjallsíðu ráðsins. Fundargerðir má finna á heimasíðu skólans ásamt skýrslu stjórnar. Stjórnendur skólans hafa ávallt verið okkur innan handar og hafa sótt fundi með okkur sé þess óskað af foreldraráðinu. Formaður og gjaldkeri funduðu með námsráðgjöfum á vorönn 2021. Námsráðgjafar eru milliliður milli foreldraráðs og nemenda. Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans situr fundi með skólanefnd skólans reglulega yfir veturinn. Einnig var fundað með forystu NFVÍ á árinu, þó ekki formlega og því engin fundargerð rituð.

Ballgæsla og viðburðir

Foreldraráðið stóð ballgæslu þegar böll byrjuðu aftur af fullum krafti. Ballgæslan fer fram fyrir utan ballstaðinn þar sem nemendur bíða í röð. Tilgangurinn er að vera sýnileg, aðstoða ef einhver er í vandræðum og vera með teppi fyrir köld ungmenni. Ballgæslunni lýkur þegar ungmennin eru komin inn á ballið.

Gjafir og styrkir

Foreldrafélagið styður þétt við bakið á svokölluðum Edrú potti sem að námsráðgjafar skólans halda utan um og gefur félagið 9 gjafabréf á hverjum viðburði, þ.e.a.s. 3 bréf eru eyrnamerkt hverjum árgangi. Þar sem miklar breytingar urðu á starfsemi NFVÍ á tímum heimsfaraldurs voru styrkveitingar líka óvenjulegar á árinu.

2003 árgangurinn var styrktur um Öryggisgæslu á Peysufatadegi á haustönn 2021.

2004 árgangurinn átti inn styrk frá foreldrafélaginu frá 2020-2021 sem notaður var á Peysufatadegi vor 2022. Friðrik Dór skemmti í Gullhömrum.

Samþykkt var á árinu að kaupa þrjú vegleg skákborð á fótum til hafa á hverri hæð til að auka samskipti nemenda í hléum.

Greiðsluseðlar

Valfrjálsir greiðsluseðlar voru sendir í heimabanka forráðamanna og voru heimtur góðar líkt og undanfarin ár, og gerir það okkur kleift að styðja vel við ungmennin okkar í skólanum, með þeim hætti sem talið hefur verið upp hér.

Fésbókarsíða

Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu undanfarin ár. Markmið hennar er að gera störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Enn fremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra. Það er mismunandi hvað ratar þarna inn en foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni nemenda, skólans og foreldra.

Komandi skólaár 2022-2023
  • Viðhalda þeim gildum sem Foreldrafélagið hefur unnið eftir
  • Halda áfram með öll hefðbundin störf Foreldrafélagsins
  • Fá hugmyndir og ábendingar frá foreldrum í gegnum fésbókina
  • Halda reglulega fundi með stjórnendum skólans
  • Efla samskipti við NFVÍ í formi stuðnings og fræðslu
  • Veita nemendum stuðning í formi fræðslu og tengsla í samstarfi við skólann
  • Halda gagnleg foreldrakvöld með framúrskarandi fræðslu
  • Efla edrúpottinn enn frekar!
Lokaorð

Ég vil þakka foreldraráði fyrir gott samstarf á skólaárinu sem er að líða, ásamt miklum þökkum til skoðunarmanna okkar. Einnig þakka ég stjórnendum skólans fyrir gott samstarf og leiðsögn námsráðgjafa skólans sem aðstoða okkur eins og þörf krefur.

Reykjavík, október 2022
Sandra Dögg Árnadóttir,
Formaður foreldraráðs