Ársskýrsla 2022-2023

Fundir

Foreldraráð hélt fjóra formlega fundi á starfsárinu (frá 1. október 2022 – 30. september 2023),  en sú hefð hefur skapast að allir meðlimir Foreldraráðsins eru boðaðir á fundi. Fundir voru haldnir 4. október 2022, 31. janúar 2023, 9. maí 2023, 18. september 2023 ásamt fjölda rafrænna samskipta. Fundargerðir má finna á heimasíðu skólans ásamt skýrslu stjórnar.
Stjórnendur skólans hafa ávallt verið okkur innan handar og hafa sótt fundi með okkur sé þess óskað af foreldraráðinu. Einn slíkur fundir var á árinu með Ingunni Björgu Arnardóttur
félagslífsfulltrúa skólans. Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans situr fundi með skólanefnd skólans reglulega yfir veturinn. Einnig var fundað með forystu NFVÍ á árinu, formaður og gjaldkeri NFVÍ komu á fund með foreldraráðinu og sögðu frá félagslífinu og störfum þeirra. Í kjölfar fundarins var ákveðið að foreldraráð bjóði upp á fyrirlestur fyrir stjórn og stjórnarnefndir NFVÍ um góð samskipti.

Viðburðir og fræðsla

Foreldraráð kynnir félagið fyrir foreldrum á Nýnemakvöldi skólans á svokölluðu nýnemakvöldi  sem haldið var til upplýsinga fyrir foreldra nýnema, árgangi 2006.  Helstu viðburðir eru foreldrakvöld með fræðslu og skemmtidagskrá. Tveir slíkir fundir voru haldnir á tímabilinu. Aðalfundur, fræðsla og gamanmál þann 4. október 2022 þar sem rúmlega 300 foreldrar og
forráðamenn mættu í Bláa salinn, Anna Steinsen frá samtökunum KVAN flutti erindi um samskipti og Bergur Ebbi lauk kvöldinu með gamanmáli. Viðburður fyrir forráðamenn sem innihélt fræðslu og gamanmál var einnig á vorönn 21.mars  2022. Samtökin 78 voru með fræðsluna hinsegin 101 og Saga Garðars sá um gamanmál. Dræm  mæting var á viðburðinn, sem kom á óvart. Foreldrafélagið bauð stjórn nemendafélagsins og stjórnarnefndum upp á fyrirlestur frá KVAN um samskipti og góða stjórnunarhætti.

Ballgæsla

Foreldraráðið stóð ballvaktir á böllum skólans og auglýsti eftir foreldrum til aðstoðar. Foreldraráðið skipar ballstjóra sem heldur utan um vaktir og sér um að koma þeim hlutum sem
vantar á staðinn. Fleiri teppi voru keypt á ballvaktirnar.

Gjafir og styrkir

Foreldraráðið styður þétt við bakið á svokölluðum Edrú potti sem að námsráðgjafar skólans halda utan um og gefur félagið 9 gjafabréf á hverjum viðburði, þ.e.a.s. 3 bréf eru eyrnamerkt hverjum árgangi.

Þrjú vegleg skákborð voru keypt og komu í hús í janúar 2023 og sett á hverja hæð skólans.  Taflmenn eru með borðunum og lét félagið merkja borðin „gjöf frá Foreldrafélagi VÍ“.

Fjórir nýir borðtennisspaðar og borðtenniskúlur voru keyptir í febrúar. Borðtennisborð hefur verið á marmaranum og verið vinsælt. Borðtennisspaðarnir voru merktir „Gjöf frá foreldrum VÍ“.

Greiðsluseðlar

Valfrjálsir greiðsluseðlar voru sendir í heimabanka forráðamanna og voru heimtur góðar líkt og undanfarin ár, og gerir það okkur kleift að styðja vel við ungmennin okkar hér í skólanum, með þeim hætti sem talið hefur verið upp hér.

Komandi skólaár

Hér gefur að líta þau viðfangsefni sem stefnt er að á skólaárinu 2023-2024:

  • Öll hefðbundin störf Foreldrafélagsins.
  • Fá hugmyndir frá foreldrum varðandi félagsgjöldin og hvernig þeim skuli best varið.
    • Foreldrar senda okkur ábendingar í gegnum fésbókina.
  • Halda reglulega fundi með stjórnendum skólans.
  • Veita nemendum enn meiri stuðning í formi fræðslu og tengsla.
  • Efla sjálfstyrkingu nemenda í formi námskeiða eða fyrirlestra í samstarfi við skólann.
  • Halda gagnleg foreldrakvöld með framúrskarandi fræðslu.
  • Efla edrúpottinn enn frekar!
  • Hafa gaman saman – góð samskipti í allar áttir, og langar mig sérstaklega að vekja athygli ykkar á liðnum Hvernig þeim skuli best varið!
Fésbókarsíða

Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu undanfarin ár. Markmið hennar er að gera  störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Enn fremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra. Það er mismunandi hvað ratar þarna inn en foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni krakkanna, skólans og foreldra.

Lokaorð

Ég vil þakka einstöku og hugmyndaríku foreldraráði fyrir gott samstarf á skólaárinu sem er að  líða, ásamt miklum þökkum til skoðunarmanna okkar. Einnig þakka ég stjórnendum skólans fyrir gott samstarf og leiðsögn sem og félagslífsfulltrúa skólans sem er tengiliður okkar við nemendafélagið. Stjórnendur veita okkur tillögur að fyrirlestrum sem henta okkar ungmennum og gjöfum sem að nýtast þeim í skólanum til að létta lund.Við óskum ávallt eftir því frá forráðamönnum að láta okkur í foreldraráðinu vita af fyrirlestrum eða öðru sem gæti hentað nemendum eða gjöfum sem nýtast í skólanum.

Reykjavík, október 2023
Sandra Dögg Árnadóttir
formaður Foreldraráðs