Fundur 14. nóvember 2023

Fundur settur af formanni kl. 17:05 og fundi slitið kl. 19:00.
Fundarritari: Nanna Ósk Jónsdóttir.

Viðstaddir: Þórunn Sigþórsdóttir (formaður), Jóhanna Helgadóttir (gjaldkeri), Nanna Ósk Jónsdóttir (ritari), Sandra Dögg Árnadóttir (fyrrum formaður), Arna Björk Þórðardóttir (fyrrum gjaldkeri), Anna Sigurborg Ólafsdóttir, Sólveig Kr. Bergmann, Áslaug Thelma Einarsdóttir og Hulda Irisar Skúladóttir.
Boðuð forföll: Jóhanna Vilhjálmsd, Elín Gréta Stefánsd, Ásta Malmquist og Guðrún Aspelund.

Forvarnardagur

21. febrúar 2024, milli 10-12.
Rætt var um að foreldrafélagið byði upp á fyrirlestur og eða skemmtikraft á forvarnardegi VÍ í samráði við skólann, þar sem áhersla væri á forvarnir til að draga úr áfengisneyslu, vapereykingum og notkun tóbakspúða. Ákveðið var að fá Jón Jónsson, fyrrum Verzling og tónlistarmann sem hefur alltaf verið góð fyrirmynd í þessum málum. Mögulega verði bætt við einum fyrirlesara í samráði við skólann.

Gjöf til skólans

Skólinn átti 116 ára afmæli nýverið. Eftir umræður um gjafir var ákveðið að foreldrafélagið myndi einungis gefa skólanum gjafir á stórafmælum, sem verður eftir 2 ár þegar skólinn verður 120 ára.

Edrúpottur

Á nýnemaballinu voru 3 vinningar fyrir hvern árgang í boði foreldrafélagsins í edrúpottinum, hver að upphæð 10.000 kr. Svo virðist sem edrúpotturinn hafi verið með fleiri vinningum og hærri upphæðum fyrir Covid, og var skólinn einnig með veglega vinninga á móti foreldrafélaginu. Þórunn formaður var búinn að heyra í GunnIngu skólastjóra varðandi endurupptöku á þessu samstarfi og tók GunnInga vel í það. Var því ákveðið á fundinum að auka verulega vinningana fyrir næsta ball og vera auk þess með einn mjög veglegan vinning á Nemendamótsballinu. Er þetta talið vera jákvætt og hvetjandi fyrir nemendur og auk þess hafa mikið forvarnargildi.

Félagslíf nemenda

Eitt af aðalsmerkjum skólans, auk góðs námsárangurs er sterkt félagslíf nemenda. Rætt var um þá þróun sem hefur átt sér stað í félagslífinu sl.ár þar sem bjórkvöld eru orðin stór hluti af félagslífi ákveðinna útvalinna nemenda og var fólk að velta því fyrir sér hvort það væri á kostnað almenns félagslífs innan skólans t.d. skemmtana.
Spurning hvort að það mætti koma þeirra hugmynd áleiðis að t.d. böll yrðu inni á dagatali skólans í upphafi skólaárs með það í huga að koma í veg fyrir að þau yrðu felld niður. Rætt var um þá hugmynd hvort sniðugt væri stinga upp á að stofnað væri 1. bekkjarráð, þar sem allir formenn 1. bekkjar væru í því ráði. Þetta gæti styrkt þau sem árgang og gætu þau t.d. verið með eigin skemmtanir á móti bjórkvöldum eldri nema. Einnig var rætt um að 2. bekkingar væru með Peysufatadaginn, 3. bekkingar með Galakvöld og spurning hvort leggja mætti til að eitthvað yrði gert sérstaklega fyrir 1.bekkinga.

Foreldrakvöld á vorönn

Ræddar voru hugmyndir að foreldrakvöldi á vorönn og hvort að hugsanlega mætti vera með öðruvísi nálgun á því. Var ákveðið að taka þá umræðu betur á næsta fundi.