Upplýsingar fyrir foreldra

Vakin er athygli á því að skólinn hefur enga aðkomu að ákvarðanatöku nemenda í tengslum við útskriftarferðir enda eru þeir útskrifaðir þegar að þeim kemur. Skólinn er hins vegar ávallt reiðubúinn að vera útskriftarnemendum innan handar við skipulagningu, sé þess óskað. Enginn kennari eða starfsmaður skólans er með í för.

Foreldrafélag Versló stendur fyrir öflugu starfi meðal foreldra og eru foreldrar hvattir til að kynna sér starfsemina og finna félagið á Facebook.

Á Facebook-síðu skólans eru settar inn hinar ýmsu fréttir og myndefni sem tengjast skólastarfinu. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að “líka við” síðuna.

Leyfi vegna íþrótta- og tómstundaferða skal sækja um með því að senda tölvupóst á netfangið verslo@verslo.is  Staðfestingar frá forsvarsmönnum íþróttafélaga eða sérsambanda er óskað.

Foreldrar og forráðamenn ólögráða nemenda tilkynna veikindi nemenda í INNU. Tilkynna skal alla veikindadaga samdægurs. Lögráða nemendur tilkynna sjálfir veikindi sín samdægurs í INNU. Misfarist skráning skal senda tölvupóst á verslo@verslo.is . Ef nemandi er veikur í tvo daga eða lengur ber honum að skila læknisvottorði. Alvarleg veikindi þarf aðeins að tilkynna í upphafi, enda skili nemandi læknisvottorði strax og skólasókn hefst að nýju. Nemendur geta leitað aðstoðar og fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa á skrifstofu skólans.

Því miður gerist það á hverju ári að nemendur ná ekki þeim lágmarkskröfum sem til þeirra eru gerðar í áföngum og þá er mikilvægt að þeir og foreldrar þeirra kynni sér vel hvaða reglur eiga við þegar nemandi fellur í áfanga. Í meginatriðum gerist eftirfarandi: Nemendur sem falla á haustönn (desember) verða að endurtaka áfangann og verða próf haldin í janúar. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka janúarprófin eða ekki. Hins vegar er hér „tækifæri“ númer 2 hjá nemendum hvort sem þeir taka prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn og eiga að gera það í fjarnámi VÍ. Próf í fjarnámi verða haldin í maí. Nánar má lesa um reglur skólans á vef skólans.

Nemandi má að hámarki endurtaka 3 áfanga. Falli hann í fleirum en þremur áföngum (vélritun telst ekki með) þá telst hann endanlega fallinn á árinu og hefur ekki rétt til endurtöku áfanga. Ef nemandi fellur þrisvar í sama áfanga telst hann endanlega fallinn. (Unnið úr skólareglum á netinu.)

Nemendur sem þurfa að þreyta endurtektarpróf eru sérstaklega hvattir til að mæta á prófsýningar og skoða prófúrlausnir sínar. Vegna persónuverndarsjónarmiða geta nemendur einungis séð eigin úrlausnir og tekið af þeim myndir. Ekki er leyfilegt að samnemandi taki myndir af prófúrlausnum bekkjarsystkina. Komist nemandi ekki á prófsýningu geta foreldrar komið fyrir hönd barna sinna ef þau eru yngri en 18 ára. Nemendur sem ekki komast á prófsýningu og eru með fall í lokaprófi og á leið í endurtekt, geta sent tölvupóst á kennara sinn daginn sem einkunnir eru birtar og óskað eftir að fá prófúrlausn sína senda til sín í tölvupósti. Athugið að þetta á einungis við um nemendur sem falla í áfanga og þurfa að endurtaka hann. Nemendur sem ekki komast á prófsýningu um jól geta óskað þess í janúar að sjá prófúrlausn sína hjá kennara eða á skrifstofu skólans.

Á hverju hausti setur listafélag NFVÍ upp leikrit sem sýnt er í Bláa sal, hátiðarsal skólans. Þá er einnig á haustönn Vælið, söngvakeppni skólans. Í febrúar er frumsýnd sýning nemendamótsnefndar sem sett er upp af nemendum skólans. Foreldrar og aðrir gestir hafa tök á að kaupa miða á þessa viðburði.

Þegar líður á skólaönnina fara foreldrar og börn þeirra gjarnan að skoða skólasóknareinkunnina. Það getur verið villandi að horfa á mætinguna, t.d. eftir veikindi þegar skammt er liðið á önnina. Það sem helst villir fyrir að mætingarprósentan miðast við hlutfall af tímasókn. Nemandi sem verður veikur í heila viku getur misst af allt upp undir 30 tímum. Ef staða nemandans er skoðuð eftir 5 vikur í kennslu þá ætti tímasókn þess nemanda að vera um 100 tímar. Hlutfall mætingar væri á þeim tíma 85% (raunmæting 70%).

Við lok annar munu nemendur hafa mætt í rúmlega 300 tíma og þá verður þessi veikindavika rétt um 5% af mætingarhlutfalli nemandans. Nemandi sem er veikur í viku en mætir í alla aðra tíma endar því með 95,5% mætingu (90,5% raunmætingu) í lok annar og siglir mætingareiningunni örugglega í höfn.

Í nóvember er boðið upp á foreldraviðtöl fyrir foreldra og forráðamenn ólögráða nemenda. Umsjónarkennarar annast viðtöl og er boðað sérstaklega í þau þá sem þurfa þykir. Þeir foreldrar sem ekki fá boð geta ávallt sett sig í samband við umsjónarkennara óski þeir eftir að ná tali af honum.

Á hverri önn fer fram miðannarmat þar sem kennarar gefa nemendum vitnisburð um stöðu þeirra í hverjum áfanga fyrir sig. Foreldrar og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri geta nálgast niðurstöður matsins með því að skrá sig í INNU en foreldar og forráðamenn lögráða nemenda verða að fá aðgang i gegnum börnin sín, sbr hér að ofan. Skólinn veitir ekki slíkan aðgang. Foreldrar eru eindregið hvattir til þess að skoða matið og nota niðurstöðurnar til þess að eiga samræður við börnin sín um námið það sem af er önninni og væntinga þeirra til lokaeinkunna í hverjum áfanga. Tilgangurinn með mati á miðri önn er að gefa nemanda og forráðamönnum hans upplýsingar um námslega stöðu nemandans miðað við vinnuframlag hans. Matið er ekki hluti af lokaeinkunn en er m.a. ætlað að gefa nemendum vísbendingar um hvers vænta megi í lokaeinkunn áfangans haldi þeir áfram á sömu braut.

Aðeins eru notaðar einkunnir A, B og C.

A: Staða nemandans er góð
B: Staða nemandans er viðunandi
C: Staða nemandans er óviðunanadi

Framhaldsskólar nota Innu á svipaðan hátt og grunnskólar nota Mentor. Foreldrar sem eru skráðir forráðamenn hafa aðgang í gegnum rafræn skilríki. Við biðjum ykkur að lesa yfir og leiðrétta persónuupplýsingar ef með þarf, sérstaklega ef þið notið vinnunetfangið ykkar og hafið skipt um starfsvettvang nýverið. Það er gert með því að velja ör við hlið myndarinnar, ”Stillingar” og ”Breyta persónuupplýsingum”. Aðgangur foreldra rennur út þegar nemandinn verður 18 ára.

Athugið að sérhver nemandi getur framlengt foreldraaðganginn í Innu með því að smella á myndina af sér og velja ”Ég” og síðan „Aðstandendur“. Ef það er „Nei“ í reitnum „Aðgangur“ þá hefur aðstandandi ekki aðgang. Því er breytt með því að smella á blýantinn. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að fylgjast með námi barna sinna.

Skólinn er opnaður alla virka daga kl. 7:30 og fylgir að öðru leyti opnunartíma bókasafns. Eftir klukkan 16:00 er einungis hægt að komast inn hjá vaktmanni. Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:15 til 15:00 mánudaga til föstudaga.