Andlát – Viðar Símonarson íþróttakennari

Viðar Símonarson lést 2. júní síðastliðinn áttræður að aldri.

Viðar fæddist í Hafnarfirði 25. febrúar 1945 og ólst þar upp. Hann lauk íþróttakennaraprófi árið 1965 og hóf þá feril sinn sem íþróttakennari, meðal annars við Verzlunarskóla Íslands, þar sem hann kenndi við góðan orðstír frá árinu 1966 allt til starfsloka árið 2015.
Þeir skipta væntanlega þúsundum, nemendurnir sem nutu leiðsagnar Viðars þau tæpu 50 ár sem hann kenndi við skólann. Hann var afar vinsæll meðal nemenda sinna og þeir báru mikla virðingu fyrir honum. Viðar var góður samstarfsfélagi, jákvæður, áreiðanlegur og átti auðvelt með að mynda góð tengsl við fólk.
Viðar var virkur í íþróttalífinu alla tíð, bæði innan og utan skólans. Hann átti farsælan feril sem handknattleiksmaður og lék með íslenska landsliðinu um árabil. Einnig starfaði hann sem þjálfari í handbolta og lagði sitt af mörkum til uppbyggingar og þróunar greinarinnar hér á landi.
Við minnumst Viðars með hlýhug og þakklæti fyrir störf hans fyrir skólann. Við sendum Halldóru og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Aðrar fréttir