17.11.2025 Eðlisfræðiferð til Evrópu Á dögunum ferðuðust 32 nemendur úr eðlisfræðibekkjum þriðja árs ásamt tveimur kennurum um Sviss og Þýskaland og fræddust um öreindir og upphaf alheims. Við lendingu í Zürich tók Björn Áki, skammtaverkfræðingur og fyrrum Verzlingur, á móti hópnum og sýndi þeim tækniháskóla Zürich (ETH) og starfsstað sinn, þar sem nemendur kynntust hagnýtnum þáttum skammtafræðinnar. Því næst var förinni heitið til Genfar en þar rekur Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN) stærsta eindahraðal heims og fengu nemendur kynningu um verkan hans og starfsemi svæðisins. Að fróðlegum kynningum loknum ferðaðist hópurinn með lest um Sviss endilangt og nam loks staðar í München, sem var einnig síðasti viðkomustaður hópsins. Þar vörðu nemendur síðustu dögunum við skoðun á stjörnuveri ásamt fjölbreyttu vali af söfnum. Á lokadeginum lá leiðin í Deutsches Museum, sem er stærsta vísinda- og tæknisafn heims. Hópurinn var til fyrirmyndar og sýndi mikinn áhuga alla ferðina.