20.11.2025 Nemendur á þriðja ári sóttu Kjarvalsstaði heim Á dögunum sóttu nemendur í íslensku á 3. ári Kjarvalsstaði heim og skoðuðu sýninguna: Kjarval og 20. öldin: þegar nútíminn lagði að. Þar má sjá verk ýmissa íslenskra listamanna, auk Kjarvals. Listamanna sem allir störfuðu á síðustu öld og spannar sýningin fyrstu sex áratugi aldarinnar. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur segir meðal annars: „Tíðarandi sem var ríkjandi hverju sinni endurspeglast í ólíkum stílbrigðum og verkin gefa innsýn inn í hugðarefni höfunda, umhverfi þeirra og aðstæður. Framan af ríkti rómantísk náttúrusýn en fljótlega kom táknsæi til sögunnar og fyrstu skrefin voru stigin í þá átt að brjóta upp natúralískt myndmál.“ Sambærilegar breytingar má einnig finna í bókmenntum síðustu aldar en þær eru einmitt viðfangsefni 3. bekkinga. Þessi sýning fellur því vel að námsefninu og er um leið fróðleg og skemmtileg viðbót. Að lokum ráku nemendur einnig inn nefið í Vestursalinn á sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur, Ósagt. Þar gat að líta heldur nútímalegri og allt annars konar verk sem vöktu ekki síður athygli og hrifningu nemenda.