29.01.2025 Söguleg heimsókn í Eddu Sá sögulegi atburður átti sér stað í morgun að nemendur 1-Y og 1-E urðu fyrstir íslenskra framhaldsskólanemenda til að heimsækja handritasýninguna Heimur í orðum í Eddu – húsi íslenskunnar – og þar með þeir fyrstu til að kynnast hinum nýju heimkynnum þjóðararfsins. Marta Guðrún Jóhannesdóttir, safnkennari Eddu, tók á móti nemendum og fræddi þá um handritin og þá glæsilega sýningu sem nýverið var opnuð í húsi íslenskunnar. Meðal þeirra dýrgripa sem eru til sýnis eru Konungsbók eddukvæða, Flateyjarbók auk brota úr handritum Snorra-Eddu og Egils sögu Skallagrímssonar. Þá er þar að finna ýmiss konar skemmtilegan fróðleik um heimssýn bæði heiðinna og kristinna manna og nokkur gullkorn úr fornum lagasöfnum úr handritasafni Árnastofnunar. Vakti refsing sú er við var lögð því athæfi að kasta af sér vatni á náungann hvað mesta kátínu nemenda. Varðaði það fjörbaugsgarð eða þriggja ára útlegð; gengju menn lengra í slíkum herfilegum sóðaskap var það skóggangssök (ævilöng útlegð). Var ekki annað sjá en að nemendur kynnu vel við sig í návist hinna ómetanlegu dýrgripa og munu allir nemendur á 1. ári skólans heimsækja Eddu á næstu vikum í tengslum við lestur þeirra á Snorra-Eddu og eddukvæðum.