Starfsfólk VÍ
Fréttir frá alþjóðasamstarfinu
Komdu í heimsókn á bókasafnið
Fjarnám
Aðalfundur Foreldraráðs Verslunarskóla Íslands var haldinn miðvikudaginn 8. október 2025, Sólveig Bergmann var fundarstjóri og Nanna Ósk Jónsdóttir fundarritari. Þórunn Sigþórsdóttir formaður lagði fram skýrslu stjórnar og Jóhanna Helgadóttir, gjaldkeri, lagði fram reikninga veturinn 2024-2025.
Sjá nánari upplýsingar um aðalfund 2024 í fundargerð á heimasíðu skólans.
Þóra Eggertsdóttir var skoðunarmaður reikninga árið 2024-2025.
Foreldraráð hélt þrjá formlega fundi á starfsárinu (frá 1. október 2024 – 30. september 2025), en sú hefð hefur skapast að allir meðlimir Foreldraráðsins eru boðaðir á fundi. Fundir voru haldnir 9. janúar 2025, 6. mars 2025, 10. september 2025, ásamt fjölda rafrænna samskipta. Fundargerðir má finna á heimasíðu skólans ásamt skýrslu stjórnar. Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans situr fundi með skólanefnd skólans reglulega yfir veturinn.
Foreldraráð kynnir félagið fyrir foreldrum á Nýnemakvöldi skólans á svokölluðu nýnemakvöldi sem haldið var til upplýsinga fyrir foreldra nýnema, árgangi 2008.
Helstu viðburðir eru foreldrakvöld með fræðslu og skemmtidagskrá. Tveir slíkir fundir voru haldnir á tímabilinu.
Aðalfundur, fræðsla og gamanmál þann 20. nóvember 2024 og var ágætis mæting foreldra og forráðamanna í Bláa salinn. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir var með fræðslufyrirlestur um jákvæða sálfræði og kærleikshring með nokkrum nemendum Verzló og Eyþór Ingi Gunnlaugsson tónlistarmaður lauk kvöldinu með tónlist og gamanmáli.
Ákveðið að hafa seinni foreldrakvöld vetrarins, 25. mars, með öðrum hætti en hingað til og fá skólastjórann og nemendur til liðs við sig. Guðrún Inga Sívertsen skólastjóri sat fyrir svörum hjá Jóhönnu Vilhjálmsdóttur fjölmiðlakonu. Foreldrum var boðið upp á að senda inn spurningar fyrir fram sem voru ræddar. Nemendur í 1.,2. og 3. bekk komu með tónlistaratriði í stað þess að borga utanaðkomandi skemmtikröftum, í staðinn fengu þau styrk fyrir Gullið, Peysó og Gala. Í lokin var boðið upp á kaffi og góðgæti og hafði fólk góðan tíma til að spjalla saman í lok kvölds.
Foreldrafélagið bauð upp á fræðslu frá Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Backmann um stafrænt ofbeldi fyrir 2. bekk.
Foreldraráðið stóð ballvaktir á böllum skólans og auglýsti eftir foreldrum til aðstoðar. Foreldraráðið skipar ballstjóra sem heldur utan um vaktir og sér um að koma þeim hlutum sem vantar á staðin, Elín Gréta Stefánsdóttir var í því hlutverki. Fleiri teppi voru keypt á ballvaktirnar. Góð mæting foreldra er á ballvaktir.
Foreldraráðið styður þétt við bakið á edrúpotti sem er fyrir öll böll skólans, voru þau 3 í fyrra: nýnemaball, jólaball og Nemó ball – félagslífsfulltrúar skólans halda utan um nemendur sem fara í edrúpottinn. Gjafir edrúpottsins eru hugsaðar til að efla forvarnir í skólanum og voru þær veglegar eins og árið áður. Gjafir voru iphone, airpods, inneignarbréf í Kringluna, pizzaveislur fyrir bekki þar sem flestir blésu í áfengismæli, Bose heyrnartól, hamborgarainneign, keila fyrir bekkinn og matarkort sem skólinn lagði til. Var þetta vel auglýst og voru viðbrögð nemenda mjög jákvæð.
Minningarbekkur um elsku Bryndísi Klöru sem var hluti af 2007 árganginum og lést eftir fólskulega árás á menningarnótt fyrir ári – var afhendur daginn eftir afmælisdaginn hennar þann 3. febrúar í samráði við foreldra hennar og kom Guðni prestur einnig og blessaði bekkinn. Bekkurinn er fyrir utan innganginn baka til að skólanum.
Hver árgangur hefur sinn eigin viðburð á vorönn, 1. bekkingar Gullið, 2. bekkingar Peysufatadaginn og 3. bekkingar Galakvöld. Styrkti foreldrafélagið öll árin fyrir þessa viðburði og voru nemendur í staðinn með tónlistarviðburð á foreldrakvöldi á vorönn.
Valfrjálsir greiðsluseðlar voru sendir í heimabanka forráðamanna og voru heimtur góðar líkt og undanfarin ár, og gerir það okkur kleift að styðja vel við ungmennin okkar hér í skólanum, með þeim hætti sem talið hefur verið upp hér.
Hér gefur að líta þau viðfangsefni sem stefnt er að á skólaárinu 2025-2026:
Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu undanfarin ár. Markmið hennar er að gera störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Enn fremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra. Það er mismunandi hvað ratar þarna inn en foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni krakkanna, skólans og foreldra.
Ég vil þakka Foreldraráði fyrir mjög gott samstarf á skólaárinu sem er að líða. Einnig þakka ég stjórnendum skólans fyrir gott samstarf og leiðsögn sem og félagslífsfulltrúum skólans sem eru tengiliðir okkar við nemendafélagið. Við hvetjum foreldra til að senda okkur í foreldraráðinu hugmyndir af fyrirlestrum fyrir nemendur eða annað sem tengist foreldrum og nemendum. Einnig vil ég þakka foreldrum fyrir góða þátttöku á foreldrakvöldum.
Reykjavík, 8. október 2025 Þórunn Sigþórsdóttir formaður Foreldraráðs