Janúar 2025

Fundur settur af formanni kl. 19:35 og fundi slitið kl. 21:00.

Fundaritari: Nanna Ósk Jónsdóttir.
Viðstaddir: Þórunn Sigþórsdóttir (formaður), Nanna Ósk Jónsdóttir (ritari), Jóhanna Helgadóttir (gjaldkeri), Elín Gréta Stefánsdóttir, Hulda Írisar Skúladóttir, Halldór
Hildimundarson og Sigríður Linda Vigfúsdóttir.

Boðuð forföll: Sólveig Kr. Bergmann, Áslaug Thelma Einarsdóttir, Sindri Sindrason, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Anna Sigurborg Ólafsdóttir

Efni fundar:
Bekkur til minningar um Bryndísi Klöru

Ákveðið var að gefa sérstakan minningarbekk frá foreldrafélaginu um Bryndísi Klöru Birgisdóttur nemenda Verzlunarskólans, sem lést eftir hörmulega árás á Menningarnótt. Rætt var útlit bekkjar, sem var hugmynd frá Huldu Írisar-Skúladóttir hönnuði. Einnig var rætt um að bekkurinn yrði vígður á afmælisdegi Bryndísar Klöru, 2.febrúar.

Styrkir til Gullsins, Peysó og Gala

Foreldraráðið fagnar því að Gullið, árshátíð 1.bekkjar haldi áfram sem hefð fyrir 1.bekkinga til móts við Peysufatadag 2.bekkjar og Gala 3.bekkjar. Þegar Gullið var haldið í fyrsta skipti 2024, var að ákveðið að styrkja skemmtiatriði þar sem ekki gafst tími til fjáröflunar. Í ár vissu nemendur frá byrjun af Gullinu og hafa því haft tíma til að safna sér fyrir
skemmtiatriðum. Hugmynd foreldrafélagsins er annað hvort að styrkja alltaf Gullið sérstaklega eða að styrkja Gullið, Peysó og Gala árlega um sömu upphæð.

Edrúpottur

Ákveðið að halda áfram með stóra vinninga fyrir Nemendamótið: Bose-heyrnartól, airpods, 10 skipta kort í matinn, inneign í Kringlunni pizzuveislu ofl. Ástæðan fyrir einstaklega veglegum vinningum í ár er forvarnargildi en sjóður Foreldrafélagsins er hár eftir Covid og okkur langaði að sjá hvort að það hafi áhrif að hafa veglega vinninga, hvort fleiri blási í áfengismæli.

Foreldrakvöld

Umræður um hvort nauðsyn sé á tveimur foreldrakvöldum eins og hefð er fyrir, annað fyrir jól og hitt eftir jól, þar sem töluvert færri mæti á seinna kvöldið. Ákveðið var að ræða betur á næsta fundi. Gæslan verður á sínum stað fyrir Nemó.